Listræn stjórnun

Portrett: Arnold Björnsson

Ólöf Sigursveinsdóttir

Listrænn stjórnandi frá 2013

Ólöf Sigursveinsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1974 og er listrænn stjórnandi, skipuleggjandi Berjadaga og formaður Félags um tónlistarhátíð í Ólafsfirði. Hún starfar sem sellóleikari og við frumsköpun í tónlist. Henni er efst í huga að tónlist er friðar- og sameiningarafl og ekki síst er henni huglægt að tónlist er sjálfbær list sem endurnýjar sig sjálf og stendur fyrir sig sjálf hvar sem hún hljómar. Möguleikar í flutningi á henni er Ólöfu daglegt viðfangsefni. Velvilji íbúa í Ólafsfirði hefur verið Ólöfu stuðningur. Hann hefur veitt til að mynda Jón Þorsteinsson, Ásta Sigurfinnsdóttir, Anna María Guðlaugsdóttir, María Bjarney Leifsdóttir, Snjólaug Kristinsdóttir við framkvæmd og kynningu í Ólafsfirði. Ljósmyndir af hátíðinni sem birtast hér að ofan eru ýmist eftir ljósmyndarann Ólaf Kr. Ólafsson eða ólafsfirðinginn Guðnýju Ágústsdóttur. 

Tengsl Ólafar við Ólafsfjörð
Ólöf er úr tónlistar fjölskyldu sem tengir hana við staðinn. Sigursveinn D. Kristinsson tónlistarfrömuður (1911-1990) er ömmubróðir hennar og Ólöf Þorláksdóttir (Gríma) kona hans er frænka hennar þar sem þau hjón voru systkinabörn og heitir Ólöf í höfuðið á henni. Stofnandi Berjadaga, Örn Magnússon, er föðurbróðir Ólafar. Í æsku lék hún sér í Ólafsfirði og dvaldi við Ólafsveg 21 hjá ömmu sinni Ástu Sigríði Kristinsdóttur (1913-2011) og hjá föðursystur, Helgu Magnúsdóttur, við Ægisgötu 3l. Faðir Ólafar er Sigursveinn Magnússon fyrrum skólastjóri Tónskóla Sigursveins og móðir hennar er Sigrún Valgerður Gestsdóttir söngkona og tónlistarkennari. Systir Ólafar er fiðluleikarinn og tónlistarkennarinn Diljá Sigursveinsdóttir.

Júlía Traustadóttir Kondrup

Kynningarfulltrúi

Júlía hóf nám í fiðluleik fimm ára gömul við Suzuki tónlistarkólann í Reykjavík hjá Lilju Hjaltadóttur. Tólf ára fór hún yfir í Tónlistarskólann í Reykjavík þar sem hún lauk síðar 7. stigi í fiðluleik. Hún stundaði söngnám í sama skóla frá árinu 2004, fyrst hjá Elísabetu Erlingsdóttur og síðar hjá Hlín Pétursdóttur. Í lok árs 2006 hlaut Júlía inngöngu í Royal College of Music í Lundúnum, þar sem hún hóf söngnám haustið 2007 undir handleiðslu Jennifer Smith. Þaðan útskrifaðist hún með BMus(hons.) í sönglist sumarið 2011.

Á námsárunum í London sótti Júlía masterclass hjá Patricia Rozario, Roger Vignoles, Stephen Varcoe og Sally Burgess. Hún tók þátt í margvíslegum tónleikum og verkefnum innan og utan skólans. Einnig kom hún fram sem einsöngvari í Cambridge, Bath og í útvarpsþætti á BBC Radio 3. Á Íslandi hefur Júlía helst einbeitt sér að flutningi þjóðlaga og kórsöng. Hún stofnaði Dúó Svanna ásamt Hildi Heimisdóttur, selló- og langspilsleikara sumarið 2012. Dúóið hefur komið fram m.a. á sumartónleikum í Skálholti og í Hörpu.

Júlía lauk meistaranámi í söng- og tónlistarkennslu frá Listaháskóla Íslands vorið 2018. Hún starfar sem grunnskólakennari og söngkona.