Listamennirnir

Margrét Hrafnsdóttir

Margrét Hrafnsdóttir, sópransöngkona, lauk 1998 8. stigi hjá Sieglinde Kahmann frá Tónlistarskóla Reykjavíkur, en einnig 8. stigi á píanó hjá Selmu Guðmundsdóttur. Margrét lauk söngkennara- og einsöngvaradiplómi frá tónlistarháskólanum í Stuttgart undir handleiðslu Michiko Takanashi, Robert Hiller og Franzisco Araiza. Einnig lauk hún prófi frá ljóðadeild tónlistarháskólans hjá Cornelis Witthoefft. Margrét hlaut styrk hjá Wagnerfélaginu í Stuttgart til að fara til Bayereuth og í framhaldi af því hélt hún einnig tónleika hjá Wagnerfélaginu. Hún hefur sótt fjölda námskeiða þar á meðal hjá Anne Sofie von Otter á uppvaxtarheimili Birgit Nilsson í Svíþjóð.

Margrét fór með hlutverk Freyju í Þrymskviðu eftir Jón Ágeirsson sem flutt var í Norðurljósum undir stjórn Gunnsteins Ólafssonar á haustdögum 2018. Hún mun fara með hlutverk Ortlinde í uppfærslu Íslensku óperunnar og Sinfoníuhljómsveit Íslands á „Die Walküre“ eftir Richard Wagner á Listahátíð í febrúar 2022.

Hún hefur haldið einsöngstónleika í Þýskalandi, Íslandi, Sviss, Danmörku og Svíþjóð. Hún hefur hlotið styrki úr tónlistarsjóði, 2020 hlaut hún þriggja mánaða listamannalaun og sex mánuði fyrir 2021. Margrét starfar sjálfstæ tt sem söngkona og söngkennari.

2007 gaf hún út ásamt Ólöfu Sigursveinsdóttur, sellóleikara geisladiskinn „Hjartahljóð“, íslensk þjóðlög. Einnig fengu þær styrk frá Hlaðvarpanum til ad láta semja fyrir sig verk, „Heimtur“, sem frumflutt var í Berlín 2011 eftir Ingibjörgu Azima. 2015 kom út diskurinn „Vorljóð á Ýli“ með þeim lögum.

Kvartettinn Spúttnik

Strengjakvartettinn Spúttnik var stofnaður árið 2018. Meðlimir í Spúttnik eru fiðluleikararnir Sigríður Bjarney Baldvinsdóttir og Diljá Sigursveinsdóttir, víóluleikarinn Vigdís Másdóttir og sellóleikarinn Gréta Rún Snorradóttir. Kvartettinn hefur komið fram við ýmis tækifæri frá stofnun hans m.a. á Sumartónleikum í Akureyrarkirkju, listahátíðinni Ljósanótt, í Hljómahöll í Reykjanesbæ, í menningarhúsinu Hannesarholti og á tónleikum i Hofi á vegum Tónlistarfélags Akureyrar. Strengjakvartettinn Spúttnik hefur verið í nánu samstarfi við fiðlusmiðinn Jón Marinó Jónsson og leikið við hin ýmsu tækifæri á hljóðfæri hans og m.a. var verkefninu úthlutað menningarstyrk til þess að halda tónleika í fangelsunum Litla Hrauni og Hólmsheiði.

Sigríður Bjarney Baldvinsdóttir

hóf ung nám í fiðluleik við Tónlistarskóla Akureyrar. Á árunum 1993-2001 stundaði hún framhaldsnám við Tónlistarháskóla víða um Evrópu. Þar á meðal í Krakow í Póllandi, Barcelona á Spáni og Hannover og Mainz í Þýskalandi. Eftir nokkurra ára tímabil í Reykjavík, þar sem hún spilaði reglulega með bæði Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og ýmsum kammermúsíkhópum ásamt því að kenna við Tónlistarskóla Mosfellsbæja, flutti hún til Stuttgart í Þýskalandi.

Hún starfaði í Suðurþýskalandi sem fiðluleikari og kennari til ársins 2017. Síðan þá býr hún í Reykjavík og spilar í strengjakvartettinum Spúttnik og ýmsum hljómsveitum og kammermúsikhópum, ásamt því að kenna á fiðlu við Tónmenntaskóla Reykjavíkur og Tónlistarskóla Seltjarnarness.

Diljá Sigursveinsdóttir

stundaði fiðlunám við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og síðar söngnám við Söngskólann í Reykjavík þaðan sem hún lauk burtfararprófi árið 1997. Diljá lagði stund á söngnám, fiðluleik og Suzuki-kennslufræði í Kaupmannahöfn og lauk bakkalárgráðu frá Det Kongelige Danske Musikkonservatorium árið 2004 og 2016 útskrifaðist hún með meistaragráðu frá Listaháskóla Íslands.

Lokaverkefni Diljár var tónleikhús í samvinnu við Kammerhópinn ReykjavíkBarokk sem bar yfirskriftina “Barokk í Breiðholtinu-Í gegnum rimlana” og var sýning byggð á tónlist kventónskálda frá miðöldum til barokktímans sem lifðu og störfuðu innan veggja klaustranna. Síðan hefur Diljá unnið þrjár tónleikhússýningar í samvinnu við Kammerhópinn ReykjavíkBarokk “Elisabeth og Halldóra, Bach og Grallarinn” 2017 og “Bréf Halldóru Guðbrandsdóttur” 2018 og “Sjókonur og snillingar” 2021. Diljá var hugmyndasmiður og verkefnastjóri nýrrar tónlistarhátíðar “Kona-Forntónlistarhátíð” sem fram fór í árið 2019 í Skálholti og árið 2021 í Hljómahöllinni Reykjanesbæ.

Diljá starfar sem Suzukifiðlukennari við Suzukideild Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og síðustu fjögur ár hefur Diljá leitt tilraunaverkefni á vegum Tónskóla Sigursveins, Hólabrekkuskóla og Fellaskóla. Diljá er fiðluleikari í Kammerhópnum ReykjavíkBarokk sem stofnaður var árið 2012 og í strengjakvartettinum Spúttnik sem stofnaður var árið 2019.

Vigdís Másdóttir

lauk fiðlukennara- og burtfarararprófi á víólu frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1993. Sama ár fór hún í framhaldsnám í víóluleik til Þýskalands, var fyrst í einkatímum hjá Hartmut Rhode í Berlín en lauk hljómsveitardiplómunámi frá tónlistarháskskólanum í Mainz árið 1998. Eftir að hafa starfað bæði sem hljóðfæraleikari og kennari í nokkur ár í Þýskalandi flutti hún til Íslands (árið 2003). Frá árinu 2003 hefur Vigdís auk kennslu og Suzuki kennslu starfað bæði sem fiðlu og víóluleikari í hinum ýmsu hópum og sveitum, m.a verið lausráðin víóluleikari hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands, leikið reglulega með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, meðlimur í strengjasveitinni Spiccato og leikið sem fiðluleikari með “Íslenskum Strengjum” frá stofnun strengjasveitarinnar árið 2018.

Gréta Rún Snorradóttir

stundaði tónlistarnám í Tónlistarskóla Kópavogs sem barn og síðar í Tónlistarskóla Reykjavíkur undir handleiðslu Gunnars Kvarans. Eftir það hélt hún utan í framhaldsnám, fyrst við Konservatoríið í Prag hjá Jaroslav Kulhan og síðan í Conservatori Superior de Música del Liceu í Barcelona hjá Amparo Lacruz. Einnig dvaldi hún um árabil í Suður Ameríku við nám og sellóleik.

Hún starfaði lengi við sellókennslu í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar en kennir nú í Tónliststarskóla Hafnarfjarðar og Tónskóla Sigursveins. Hún lærði Suzuki kennsluaðferðina hjá Ruben Rivera og kennir sellóleik bæði eftir Suzuki aðferðinni og hinni almennu leið. Auk þess að spila í strengjakvartett tekur hún þátt í hinum ýmsu verkefnum til dæmis með Íslenskum strengjum, Strengjasveitinni Spiccato og Sinfóníuhljómsveit Austurlands.

Haukur Gröndal

Haukur nam við Tónlistarskóla Garðabæjar og Tónlistarskóla FÍH á árunum 1984-1997. Kennarar hans við FÍH voru meðal annarra Sigurður Flosason og Stefán S. Stefánsson. Haukur tók burtfararpróf frá Tónlistarskóla FÍH vorið 1997. Árið 2004 lauk Haukur mastersgráðu í saxófónleik frá Rytmisk Musikkonservatorium í Kaupmannahöfn. Kennarar hans þar voru meðal annarra Frederik Lundin og Lars Möller. Haukur sótti einkatíma í New York 2001 og 2003 hjá meðal annarra Chris Speed, David Binney og David Kraukauer, Helsinki 2003 og Plovdiv í Búlgaríu 2006 hjá klarínettleikaranum Petko Radev.

Haukur hefur komið fram á tónleikum um öll Norðurlönd með ýmsum hljómsveitum, hlotið tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna tvívegis, leikið inná fjölmargar hljómplötur, unnið við upptökustjórn, útsett fyrir ýmsar hljómsveitir og svo mætti lengi telja.

ÞorgrímurJónsson

Þorgrímur Jónsson kontra- og rafbassaleikari lauk burtfaraprófi frá Tónlistarskóla FÍH 2001 og BMus prófi í kontrabassaleik frá Konunglega tónlistarháskólannum í Haag í Hollandi 2006. Hann hefur starfað við tónlistarkennslu m.a. við Tónlistarskóla Garðabæjar, TSDK, FÍH, MÍT og við tónlistardeild LHÍ.

Þorgrímur hefur verið virkur á ýmsum sviðum tónlistar frá 15 ára aldri, starfrækt eigin sveitir og leikið inn á fjölda platna. Á Jazzhátíð Reykjavíkur 2016 kom út fyrsta sóló plata Þorgríms, Constant Movement, hlaut sú plata tvenn verðlaun á Íslensku Tónlistar- verðlaununum 2017, meðal annars sem plata ársins í flokki jazz og blús. 2021 kom svo út hans önnur plata, Hagi, sem var tilnefnd til fernra verðlauna á Íslensku Tónlistarverðlaunum 2022. Auk alls þessa hefur Þorgrímur komið víða fram hér heima og á erlendri grundu. T.a.m. farið tónleikaferðir til USA, Kanada og Evrópu. Leikið á jazzhátíðum í Tékklandi, Noregi, Danmörku, London, Serbíu, Moskvu, Finnlandi, Færeyjum, N-Makedóníu, Grikklandi og komið fram í Kennedy Center í Washington.

Ásgeir Ásgeirsson

Gítar- og strengjaleikarinn Ásgeir Ásgeirsson er jafnvígur á ólíkar tegundir tónlistar svo sem popp, rokk, djass og margskonar heimstónlist. Ásgeir hefur leikið inn á u.þ.b. eitt hundrað hljómplötur og hefur samið yfir 100 lög og útsetningar sem út hafa komið á plötum. Ásgeir hefur á tæplega þrjátíu ára ferli sínum sem atvinnu- tónlistarmaður leikið og hljóðritað með öllum fremstu tónlistarmönnum Íslands, sem og allmörgum þekktum erlendum hljóðfæraleikurum s.s. Dave Weckl, Guthrie Govan, Chris Cheek, Seamus Blake, Ingrid Jensen, Adrian Cunningham,Manosh Bardhan, Borislav Zgurovski, Claudio Spieler, Nilos Tatasopoulos og Yurdal Tokcan,Hamid Khansari og Göksel Baktagir.

Ásgeir hefur gefið út fimm sólóplötur, tvær með frumsömdum jazzi, Passing through með 2006 með Chris Cheek, Matt Penman og Erik Quick og Trio 2015 með fimm íslenskum mismunandi jazztríóum. Undanfarið hefur Ásgeir unnið með íslensk þjóðlög, farið með þau í ferðalag til Suðaustur-Evrópu og Mið-Austurlanda og gefið út þrjá geisladiska: Two sides of Europe (unnið með nokkrum af fremstu tónlistar- mönnum Tyrkja); Travelling through cultures – gerð með grískum, búlgörskum og indverskum tónlistarmönnum og -konum og Persian path, unnin með nokkrum af fremstu tónlistarmönnum og konum frá Íran. Um allan söng á þessum plötum sjá Sigríður Thorlacius og Egill Ólafsson.

Ásgeir hefur margoft verið tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna og var kjörinn bæjarlistamaður Kópavogs árið 2016.

Magnús Trygvason Eliassen

hóf tónlistarnám 8 ára gamall. Hann stundaði nám í Tónlistarskóla FÍH frá 2004-2010 og árið 2008 hlaut hann styrk fyrir framúrskarandi árangur. Magnús stundaði einnig nám í NTNU í Þrándheimi, Noregi undir handleiðslu Tor Haugerud, Ernst Wiggo Sandbakk og fleiri frábærum trommuleikurum.

Á síðustu árum hefur Magnús verið mjög virkur í íslensku tónlistarlífi og hefur spilað með fjölmörgum hljómsveitum og tónlistarmönnum eins og Eyþóri Gunnarssyni, Ellen Kristjánsdóttur, Kristjönu Stefánsdóttur, Tómasi R. Einarssyni, Sigríði Thorlacius, Steingrími Karl Teague, ADHD, Amiina, Sin Fang, K-Trio, Moses Hightower og múm. Magnús hefur tekið þátt í keppninni Young Nordic Jazz Comets í fjögur skipti og hefur tvisvar unnið 1. verðlaun, með hljómsveitunum K-Trio og Reginfirra.

Chrissie Guðmundsdóttir

Chrissie Telma Guðmundsdóttir (www.chrissiegudmunds.com) útskrifaðist með Diploma gráðu frá Listaháskóla Íslands árið 2012 undir handleiðslu Guðnýjar Guðmundsdóttur. Tveimur árum seinna útskrifaðist hún með B.Mus gráðu undir handleiðslu Auðar Hafsteinsdóttur. Árið 2014 flutti Chrissie til Arizona sem Fulbright styrkþegi og útskrifaðist með meistaragráðu í fiðluleik frá Arizona State University undir handleiðslu Prof. Danwen Jiang árið 2016.

Chrissie hefur leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands 2012, Sinfóníuhljómsveit Áhugamanna 2016 og Sinfóníuhljómsveit Unga Fólksins 2018. Hún starfar nú sem fiðlukennari við Tónlistarskóla Rangæinga, Nýja Tónlistarskólann og Allegro Suzukitónlistarskólann og er meðlimur í Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Chrissie er hefur lokið alþjóðlegu Suzuki kennaranámi.

Chrissie er frumkvöðull í tónlist og skipuleggur námskeiðið ,,Fiðlufjör’’ á Hvolsvelli þar sem tugir nemenda og foreldra koma árlega til að spila í nokkra daga undir handleiðslu frábærra kennara.

Einar Bjartur Egilsson

Einar Bjartur Egilsson (www.einarbjartur.com) hóf píanónám 7 ára í Tónlistarskólanum í Reykjahlíð við Mývatn. Síðar fluttist hann til Reykjavíkur og stundaði nám í Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar hjá Guðríði St. Sigurðardóttir og Önnu Málfríði Sigurðardóttur. Haustið 2010 hóf hann svo nám í Listaháskóla Íslands undir handleiðslu Peters Máté og útskrifaðist þaðan vorið 2013. Í Janúar það ár lék hann einleik í píanókonsert F. Poulencs með Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Frá 2013 – 2015 stundaði hann meistaranám í Konservatoríinu í Maastricht, Hollandi hjá dr. Katiu Veekmans. Í desember 2014 hlaut hann styrk úr Minningarsjóði um Birgi Einarsson. Einar hefur samið tónlist fyrir nokkrar stuttmyndir t. d. þýsku myndina Windspiele og síðla árs 2015 gaf hann út sína fyrstu hljómplötu að nafni Heimkoma með eigin tónsmíðum. Hann hefur spilað á tónlistarhátíðum í Hollandi og starfað með kórum bæði þar og hér heima. Um þessar mundir starfar hann sem píanókennari og meðleikari við Tónlistarskóla Árnesinga.

Einar hefur haldið tónleika reglulega undanfarið með ýmsum tónlistarmönnum m. a. Chrissie Telmu ásamt því að koma fram sem einleikari annað slagið. Nýlega gaf hann út tvær hljómplötur með píanóverkum eftir Svissneska tónskáldið Frank Baumann og er þessa dagana að vinna að nýrri hljómplötu með eigin tónlist.

Ármann Helgason

Ármann hefur komið víða fram sem einleikari, m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands og á einleikstónleikum og hefur haldið fjölda kammertónleika. Hann er klarinettuleikari og listrænn stjórnandi kammerhópsins Camerarctica auk þess að hafa leikið með ýmsum öðrum hópum þ.á.m Caput, færeyska kammerhópnum Aldubáran, blásaraoktettinum Hnúkaþey og Amasia tríóinu. Ármann leikur einnig reglulega með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Hljómsveit Íslensku Óperunnar og er leiðandi klarinettuleikari Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands.

Ármann var valinn bæjarlistamaður Garðabæjar árið 1997. Hann hlaut TónVakaverðlaun Ríkisútvarpsins árið 1995 og sama ár kom út geisladiskur með leik hans á Klarinettukvintett Mozarts. Einnig hafa verið gerðar útvarpsupptökur á leik hans á Klarinettukonsertum W.A. Mozarts og Aarons Copland með Sinfóníuhljómsveit Íslands auk fjölda annarra hljóðrita með ýmsum hópum.

Ármann sinnir einnig kennslu og er Deildarstjóri blásaradeildar Tónlistarskóla Hafnarfjarðar, stjórnandi Sinfóníuhljómsveitar skólans auk þess að kenna við Listaháskóla Íslands.

Ólöf Sigursveinsdóttir

Ólöf Sigursveinsdóttir er listrænn stjórnandi Berjadaga. Hún fór í fyrsta sellótímann fimm ára í Tónskóla Sigursveins. Kennarar hennar voru Nora Kornbluh og Bryndís Halla Gylfadóttir og síðar Gunnar Kvaran við Tónlistarskólann í Reykjavík. Ólöf hélt utan til náms við Tónlistarháskólann í Stuttgart hjá Hans Häublein og lauk diplom og framhaldsprófi (KA) með hæstu einkunn. Samhliða hlaut Ólöf þjálfun í hljómsveitar- og kórstjórn og starfaði við tónlist í Þýskalandi til ársins 2008.

Ólöf hefur haldið einleikstónleika í Danmörku, Sviss og Þýskalandi og leikið einleikskonsert með Sinfóníuhljómsveit áhugamanna og Sinfóníuhljómsveit Austurlands. „Hljóðmynd – sjötta svítan“ er dæmi um verkefni sem Ólöf hefur unnið í samstarfi við Sigtrygg Bjarna Baldvinsson myndlistarmann þar sem flutningur sjöttu sellósvítu Bachs rímar við samnefnda þrívíddar-rimlaverk Sigtryggs. Ólöf er einn stofnenda ReykjavíkBarokk hópsins og stofnandi Íslenskra strengja, kammersveitar sem hún jafnframt stjórnar. Auk þess að starfa sem sellókennari við Tónskóla Sigursveins og Tónlistarskóla Reykjanesbæjar leikur Ólöf reglulega einleik og samleik með ýmsum listamönnum. Ólöf lék einleikstónleika með Slava Poprugin í Norðurljósum í Hörpu í nóvember sl.. Hún hefur skipulagt Berjadaga tónlistarhátíð frá árinu 2013. Þá tók hún við að föður sínum og systur, Diljá.

Slava Poprugin

Viacheslav Poprugin (Slava) fæddist í borginni Khabarovsk í Rússlandi en gerðist hollenskur Ríkisborgari árið 2018. Hann hlaut fyrstu tónlistarmenntun á heimaslóðum sem kórdrengur, en lagði síðar stund á píanónám og útskrifaðist árið 2000 frá Akademíunni í Gnessin.
Áhugi hans á samtímatónlist varð tilefni samvinnu við mörg tónskáld í heimalandinu um flutning bæði með hljómsveitum og í kammermúsík.

Orðstír hans og reynsla leiddu 1999 til kynna hans og sellóleikarans Natalia Gutman og þar með hófst mikilvægur kafli á ferli Poprugin með umfangsmiklu tónleikahaldi víða um heim með henni auk þess sem hann varð kennari við hið þekkta Konservatórí í Moskvu. Sem meðleikari hefur hann unndið með heimsþekktum einleikurum á borð við klarínettuleikarann Martin Fröst, fiðluleikarann Yuri Bashmet, sellóleikarann Alexander Buzlov og hann með fiðlusnillingnum Alexander Kagan. Margir píanistar hafa útskrifast undir handleiðslu Viacheslav Poprugin og hann starfar nú sem kennari í píanódeild Tónlistarháskólans í Hag í Hollandi og gerðist hollenskur ríkisborgari árið 2018. Poprugin hefur einnig leikið inn á fjölda hljómplatna þ. á m. með Natalia Gutman og Alexey Lubimov.

Poprugin hefur einnig stjórnað fjölda hljóðritana sem upptökustjóri fyrir útgáfur á borð við Gramola, Live Classics og Artservice Music Publishing og rekur nú eigið hljóðver, Steppenwolf studio. Poprugin starfar nú jöfnum höndum sem píanóleikari og upptökustjóri. Ólöf Sigursveinsdóttir sellóleikari og Slava hittust á alþjóðlegri tónlistarhátíð, Cellofestival Zutphen í Hollandi sumarið 2021 og í kjölfarið hófu þau samstarf sem leiddi af sér að Viacheslav Poprugin hefur nú ákveðið að koma alla leið norður í Ólafsfjörð! En þau léku saman tvíleikstónleika í Hörpu í nóvember sl. sem hljóðritaðir voru fyrir rás 1.

Rodrigo Lopes

Rodrigo Lopes er tónlistarkennari í þremur tónlistarskólum, á Akureyri, Fjallabyggð og við Tónlistarskóla Eyjafjarðar. Þar kennir hann trommu- og slagverksleik. Sem tónlistarmaður er Rodrigo Lopes fjölhæfur en mesta rækt hefur hann lagt við ýmis afbrigði af tónlist Rómönsku Ameríku.

Guito Thomas gítar og söngur

Guito Thomas er rokk-gítarleikari, lagasmiður og söngvari frá Brasilíu sem hefur búið hér á Íslandi sl. 15. ár. Tónlist hans er undir áhrifum frá Joe Satriani, Jimi Hendrix, Van Halen, U2, og Pink Floyd með hreim af Bossa Nova og Sömbu.

Frá árunum 2000 til 2006 komu frá honum þrjú albúm „Mil Maneiras Pra Dizer“, „Festa” and „Na Velocidade Dessa Rede”, öll í brasilískum anda. Fyrsta plata Guito var tilnefnd sem útgáfa ársins og eitt laga hans hljóðritað af EMI með þekktum listamönnum í Brasilíu. Með annarri plötunni stimplaði hann sig inn á tónlistarsviðið og við tóku fjölmörg tækifæri fyrir hann að koma fram og vinna í hljóðverum með öðrum listamönnum. Með þriðju plötu sinni komst hann svo inn á útvarpsstöðvar þar sem lög hans nutu vinsælda og ljóst var að hann hafði náð verulegum árangri á ferli sínum. Árið 2007, eftir neikvæða þróun í brasilískum tónlistariðnaði, flutti Guito til Íslands og nam við Tónskóla þjóðkirkjunnar orgelleik og kórstjórn. Hann lærði einnig sönglagagerð í Berklee College of Music í Boston þar sem hann lauk einnig meistaraprófi í gítarleik og síðar meistaraprófi frá Falmouth University í London. Hann hefur einnig lokið gráðu í uppeldis- og kennslufræðum frá Háskólanum á Akureyri.

Síðastliðin 15 ár hefur hann stundað kennslu í tónlistarskólum á Tröllaskaga og unnið sem organleikari og kórstjóri við Siglufjarðarkirkju. Ásamt starfi sínu þar sinnir hann einstökum verkefnum þar sem hann er fenginn til að koma fram á ýmsum stöðum víða um land þar sem hann hefur kynnt brasilíska tónlist samvinnu við aðra tónlistarmenn.

Sigrún Valgerður Gestsdóttir

Sigrún hóf söngnám hjá Guðrúnu Sveinsdóttur og Engel Lund við Tónlistarskólann í Reykjavík. Framhaldsnám stundaði hún við Royal Academy of Music í London hjá Marjorie Thomas, í Kalamazoo, Bandaríkjunum í söngstúdíói Fay Smith og við Tónlistarháskólann í Vínarborg. Sigrún hefur komið fram með Kammersveit Reykjavíkur, sungið hlutverk í Íslensku óperunni, starfað með sönghópnum Hljómeyki og komið fram á tónleikum hér heima og erlendis. Sigrún kennir við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar.

Sigursveinn Magnússon

Að loknu nám hér heima í Tónlistarskólanum í Reykjavík og Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar stundaði Sigursveinn Magnússon framhaldsnám við Royal Academy of Music í London og síðar við Western Michigan University í Bandaríkunum. Þessi ár lagði hann stund á nám í hornleik, píanóleik og hljómsveitarstjórn. Síðar nam hann við Tónlistarháskólann í Vínarborg og dvaldi eitt námsár í Danmörku. Ásamt störfum sínum sem tónlistarskólastjóri hefur Sigursveinn starfað að félags- og skipulagsmálum á sviði tónlistar, verið virkur sem útsetjari, kvæðamaður, kórsöngvari og meðleikari og stjórnað hljómsveitum og kórum.

Hundur í óskilum

Tveggja manna stórsveitin Hundur í óskilum fetar óskilgreinda braut á milli þess að vera hljómsveit, leikflokkur og/eða uppistand. Samstarf þeirra Eiríks Stephensen og Hjörleifs Hjartarsonar hófst einhvern tímann á tíunda áratug síðustu aldar norður á Dalvík. Í upphafi fengust þeir aðallega við að endurvinna þekkt dægurlög í undarlegum útsetningum fyrir ýmis tilfallandi hljóðfæri, eldhúsáhöld og hvaðeina sem að gagni gat komið. Í bland voru eigin tón- og textasmíðar sem hafa orðið fyrirferðarmeiri með tímanum. Á síðari árum hefur sveitin fært sig æ meir yfir í leikhúsið.

Hundur í óskilum hefur sett upp fjórar kabarett-skotnar leiksýningar sem gengið hafa lengi fyrir fullu húsi bæði norðan heiða og sunnan auk annarra tón/leiklistarverkefna. Síðasta leikrit þeirra„ Njála á hundavaði“ gekk á fjölum Borgarleikhússins allt síðasta leikár og verður haldið áfram með haustinu.

Kristín Mjöll Jakobsdóttir

nam fagottleik við Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk meistaragráðu frá Yale School of Music 1989, auk þess að stunda framhaldsnám í Amsterdam og Cincinnati, Ohio. Veturinn 1991-92 starfaði Kristín með Fílharmóníuhljómsveitinni í Hong Kong og var búsett þar til 1998. Síðan hefur Kristín Mjöll starfað sem tónlistarkennari og sjálfstætt starfandi fagottleikari í Reykjavík, og leikið m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Íslensku óperunni, Kammersveit Reykjavíkur, Hnúkaþey, Camerarctica, Caput o.fl. Kristín Mjöll hefur m.a. haldið einleikstónleika við Gabriel Fauré tónlistarskólann í Frakklandi, á Myrkum músíkdögum, í 15:15 tónleikasyrpunni og komið fram sem var einleikari með City Chamber Orchestra of Hong Kong. Árið 2016 kom út hjá Smekkleysu geisladiskurinn Ferðalag/Journey með hljóðritunum Kristínar Mjallar á íslenskum einleiksverkum fyrir fagott.

Kristín Mjöll var formaður Félags íslenskra tónlistarmanna og stjórnarmaður í Bandalagi íslenskra listamanna 2008-2012, og sat í stjórn Listahátíðar í Reykjavík 2012-2014. Hún hefur starfað við verkefnastjórn og er til að mynda stofnandi Blásaraoktettsins Hnúkaþeys og Alþjóðlegu tónlistarakademíunnar í Hörpu sem hún stýrði í þrjú ár. Hún hefur verið kynningarfulltrúi Berjadaga og starfað fyrir tónlistarhátíðina Músík í Mývatnssveit. Kristín Mjöll lauk meistaraprófi í hagnýtri menningarmiðlun og diplómanámi í vefmiðlun frá Háskóla Íslands vorið 2018.

Kristín Mjöll er skólastjóri Tónlistarskóla Vesturbyggðar síðan haustið 2020.

Ásta Sigríður Arnardóttir

Ásta Sigríður hefur frá ungum aldri komið fram á hinum ýmsu sviðum listanna. Hún hefur verið meðlimur í þjóðlagahljómsveitinni Spilmönnum Ríkínís með fjölskyldu sinni frá sjö ára aldri og til dagsins í dag. Með Spilmönnum hefur hún komið fram á allskyns tónlistarhátíðum, tekið upp og gefið út tvær hljómplötur og einnig ferðast erlendis. Ásta tók einnig þátt í uppsetningu barnaóperunnar Baldursbrá, eftir Gunnstein Ólafsson, í Hörpu árið 2015 og var það hennar fyrsta verkefni í óperuheiminum. Vorið 2021 tók hún þátt í að hljóðrita nýja barnaóperu eftir Elínu Gunnlaugsdóttur sem setja á á svið haustið 2022.

Haustið 2020 hóf hún nám í söng við Listaháskóla Íslands sem hún klárar næsta vor undir leiðsögn Hönnu Dóru Sturludóttur, Kristins Sigmundssonar, Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur og Stuart Skelton ásamt Dísellu Lárusdóttur.