Listamennirnir

Agnes Eyja Gunnarsdóttir

Agnes Eyja stundaði nám í fiðluleik við Listaháskóla Íslands hjá Auði Hafsteinsdóttur. Leið hennar lá síðan til Rotterdam í mastersnám við Codarts University of the Arts. Kennarar hennar voru Leticia Sciarone and Natasja Morosova og útskrifaðist hún þaðan vorið 2022. 

Áhugi Agnesar á barokktónlist hefur vaxið mikið síðastliðin ár og ákvað hún að vinna að mastersverkefni í Hollandi sem snerist alfarið um flutning á fiðlusónötum eftir Heinrich Ignaz Franz Biber á upprunaleg hljóðfæri. Hún naut leiðsagnar frá fiðluleikurum á borð við Franc Polman, Ryo Terakado, Goran Gribajcevic og Elfu Rún Kristinsdóttur.

Agnes leikur nú með Íslenskum strengjum, Elju kammersveit, Barokkbandinu Brák og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Hún hefur áður komið fram með Sweelinck Baroque Orchestra, Caput Ensemble og Reykjavík Barokk og fleirum.

Alexandra Kjeld

Alexandra Kjeld nam fiðluleik um árabil og lauk BA prófi í tónlistarfræði frá Sorbonne háskólanum í París árið 2006, með áherslu á menningarstjórnun. Skömmu síðar hóf hún nám og störf á kontrabassa og hefur síðan þá spilað og sungið á fjölda tónleika og tónleikahátíða í gegnum árin, ýmist klassíska eða rytmíska tónlist, m.a. með Schola Cantorum, Sinfóníuhljómsveit Íslands og tónlistarhópunum Umbru og Los Bomboneros. Hún hefur einnig gegnt ýmsum stjórnar- og dómnefndarstörfum í tónlist í gegnum árin og komið að tónlistarútgáfu og greinarskrifum um tónlist. 

Ave Kara Sillaots

Ave Kara Sillaots er fædd og uppalin á Eistlandi. Þar hóf hún sitt tónlistarnám 7 ára gömul. Hún lauk 5 ára námi árið 1984 í Tónlistarskóla í Nuia með harmónikkuprófi. Síðar tók við 4 ára nám í Tónlistarskóla G.Ots í Tallinn og hún útskrifaðist 1991 með kennararéttindi og hljómsveitarstjórn ásamt réttindum til hljóðfæraleiks í hljómsveit. Að því loknu hélt hún til Litauen þar sem hún stundaði nám við Tónlistarskólann í Vilnius og útskrifaðist 1995 Baccalaureus of Musicology Branch með B.A. gráðu í kammertónlist og kennararéttindi og Árið 1996 með Masters gráðu í kammertónlist og kennararéttindi. Frá 2006 stundaði hún orgelleik, litúrgisk orgelleik, einsöngsnám og hliðargreinar við Tónskóla Þjóðkirkjunnar í Reykjavík og lauk kirkjuorganistaprófi frá skólanum vorið 2010. Og árið 2022 lauk hún Kantórsprófið við Tónskóla Þjóðkirkjunnar Reykjavík. Ave hefur kennt á harmonikku ásamt fræðigreinum í Eistlandi, í Lithaen, í Sviss og Íslandi. Hún hefur á undanförnum árum leikið og ferðast með margs konar hópum til Ítalíu, Frakklands, Finnlands, Svíþjóðar, Noregs, Sviss, Þýskalands, Íslands og fl. Hún starfar nú sem tónlistarkennari við Tónlistarskólann á Tröllaskaga og sem organisti og kórstjóri við Ólafsfjarðarkirkju.

Ágústa Bergrós Jakobsdóttir

Ágústa Bergrós Jakobsdóttir er fædd í Reykjavík árið 2002. Hún hóf sellónám tíu ára gömul í Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar. Kennari hennar í sellónáminu um tíu ára skeið var Ólöf Sigursveinsdóttir. Vorið 2022 lauk hún framhaldsprófi undir handleiðslu Ólafar. Síðasta haust hóf hún bakkalárnám við Listaháskóla Íslands hjá Sigurgeiri Agnarssyni og Sigurði Bjarka Gunnarssyni. Ágústa Bergrós hefur spilað með ýmsum hljómsveitum og verið leiðari Ungsveitar Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Sinfóníuhljómsveitar Tónlistarskólanna og Sinfóníuhljómsveitar unga fólksins. Hún hefur tekið þátt á ýmsum námskeiðum hér á landi, m.a. Alþjóðlegu tónlistarakademíunni í Hörpu. Ágústa Bergrós hefur hlotið leiðsögn hjá fjölmörgum sellistum, t.d. hjá Kian Soltani, Andreas Brantelid, Henrik Brendstrup og Sæunni Þorsteinsdóttur.

Ármann Helgason

Ármann Helgason, klarinettuleikari, hefur átt fjölbreyttan feril sem einleikari, kammermúsíkant og hljómsveitarspilari með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Íslensku Óperunni, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, kammerhópnum Camerarctica og ýmsum öðrum hópum, m.a. Caput, Hnúkaþey og færeyska kammerhópnum Aldubáran. Ármann stundaði nám í klarinettuleik við Tónlistarskólann í Reykjavík og í London og París og hefur hann oftsinnis hlotið starfslaun listamanna til þess að sinna ýmsum tónlistarverkefnum. Ármann sinnir einnig uppeldislegum skyldum og er deildarstjóri blásaradeildar við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar þar sem hann stýrir Sinfóníuhljómsveit skólans.

Ásta Sigríður Arnardóttir

Ásta Sigríður hefur frá ungum aldri komið fram á hinum ýmsu sviðum listanna. Hún hefur verið meðlimur í þjóðlagahljómsveitinni Spilmönnum Ríkínís með fjölskyldu sinni frá sjö ára aldri og til dagsins í dag. Með Spilmönnum hefur hún komið fram á allskyns tónlistarhátíðum, tekið upp og gefið út tvær hljómplötur og einnig ferðast erlendis. Ásta tók einnig þátt í uppsetningu barnaóperunnar Baldursbrá, eftir Gunnstein Ólafsson, í Hörpu árið 2015 og var það hennar fyrsta verkefni í óperuheiminum. Vorið 2021 tók hún þátt í að hljóðrita nýja barnaóperu eftir Elínu Gunnlaugsdóttur sem setja á á svið haustið 2022.

Haustið 2020 hóf hún nám í söng við Listaháskóla Íslands sem hún klárar næsta vor undir leiðsögn Hönnu Dóru Sturludóttur, Kristins Sigmundssonar, Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur og Stuart Skelton ásamt Dísellu Lárusdóttur.

Ásthildur Helga Jónsdóttir

Ásthildur byrjaði í fiðlunámi 5 ára gömul í Tónlistarskóla Garðabæjar og lauk þar miðprófi. Hún skipti þó alfarið yfir á kontrabassa 18 ára gömul. Hún hóf nám í klassískum kontrabassaleik við Tónlistarskólann í Reykjavík undir leiðsögn Hávarðar Tryggvasonar. Hún lauk síðan framhaldsnámi við Menntaskólann í tónlist vorið 2021. Haustið sama ár hóf hún bakkalárnám í Kungliga Musikhögskolan í Stokkhólmi. Fyrst með Michael Karlsson og Mats Nilson sem kennara en í dag með Vali Pálssyni.

Ásthildur hefur tekið þátt í verkefnum hjá Ungsveit Sinfóníunnar, Sinfóníuhljómsveit unga fólksins og Sinfóníuhljómsveit Tónlistarskólanna. Hún hefur einnig tekið þátt í verkefnum hjá Íslenskum strengjum, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands ásamt erlendum verkefnum eins og Orchester norden. 

Ásthildur hefur tekið þátt í ýmsum verkefnum í Stokkhólmi auk þess hefur hún sótt masterklassa hjá  Lorraine Campet, Michael Karlsson, Matt Nilson og Ann Wallström.

Birgir Steinn Theodórsson

Björg Brjánsdóttir

Björg Brjánsdóttir flautuleikari var tilnefnd sem Flytjandi ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum 2022. Hún útskrifaðist af einleikarabraut frá Tónlistarháskóla  Noregs í Osló vorið 2017 og hefur auk þess stundað nám í þverflautuleik við Tónlistarháskólann í Hannover, Tónlistarháskólann í München og Konunglega danska tónlistarháskólann. Þar hafa aðalkennarar hennar verið Anna Dina Björn-Larsen, Andrew Cunningham, Per Flemström og Stephanie Hamburger. Björg hefur komið fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveit unga fólksins, Kammersveitinni Elju, Lúðrasveitinni Svaninum og Íslenska flautukórnum.

Hún er flautuleikari tónlistarhópsins Caput og Elju kammersveitar og hefur sinnt ýmsum hljómsveitarverkefnum, þ.a.m. með Fílharmóníuhljómsveitinni í Bergen, Sinfóníuhljómsveitinni í Braunschweig, hljómsveit Íslensku óperunnar og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hún hefur unnið með fjölmörgum tónskáldum en af nýjustu verkefnum má nefna Báru Gísladóttur (VÍDDIR 2020-2022), Friðrik Margrétar-Guðmundsson (Ekkert er sorglegra en manneskjan, 2020-2022) og Ingibjörgu Ýr Skarphéðinsdóttur (Fuglabjargið, 2021).

Frá árinu 2016 hefur hún unnið með Björk Guðmundsdóttur sem hluti af flautuseptettnum Viibra sem spilaði inn á plötu Bjarkar, Utopiu og ferðast um með henni til að flytja tónsýningu hennar, Cornucopiu. Á haustdögum kemur út fyrsta einleiksplata Bjargar með verkum eftir Báru Gísladóttur.

Chrissie Guðmundsdóttir

Chrissie Telma Guðmundsdóttir er stjórnandi og stofnandi námskeiðsins Fiðlufjör. Hún lauk B.Mus gráðu undir handleiðslu Auðar Hafsteinsdóttur og Guðnýjar Guðmundsdóttur árið 2014. Chrissie lauk meistaragráðu í fiðluleik frá Arizona undir handleiðslu prof. Danwen Jiang. Hún hefur lokið fullgildum kennsluréttindum til Suzuki kennslu undir handleiðslu fyrrum Suzuki kennara síns á yngri árum, Lilju Hjaltadóttur.

Chrissie hefur leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveit Áhugamanna.

Hún er meðlimur í Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, heldur reglulega einleikstónleika ásamt píanóleikaranum Einari Bjarti um land allt ásamt því að leiða strengjasveitina Íslenska Strengi.

Chrissie er mjög virk í íslensku tónlistarlífi og tekur þátt í ýmsum verkefnum tengdum tónlistinni eins og tónleikum í ýmsum geirum, trúlofunum, brúðkaupum, Eurovision, sjónvarpsþáttum, tónlistarmyndböndum og kvikmyndum.

Chrissie hefur starfað sem fiðlukennari við Allegro Suzukitónlistarskólann, Nýja Tónlistarskólann og Tónlistarskóla Rangæinga.

Christiane Hajek

Christiane Hajek, fædd í Trier (Þýskalandi), stundaði fiðlunám við tónlistarháskólann í Hannover. Hún hefur spilað með hljómsveitum á borð við Orchester der Ludwigsburger Schlossfestspiele, Heidelberger Sinfoniker, Waiblinger Kammerorchester, Heilbronner Sinfonieorchester  og L‘Arpa Festante. Christiane Hajek hefur komið fram með mörgum ólíkum kammertónlistarhópum sem og kvartettinum Crisantemi Quartet, en hún er einn af stofnendum hans. 

Auk þessa er hún mjög áhugasöm um tónlistarflutning á upprunaleg hljóðfæri. Tónleikaferðalög hafa leitt hana til Kína, Bandaríkjanna, Argentínu, Frakklands og Íslands. Christiane hefur sinnt kennslustarfi á bæði fiðlu og víólu við “Youth Music School” í Stuttgart.

Daniel Absalon Ramírez Rodríguez

Daniel Ramírez er klarínettuleikari frá México. Hann stundaði bakkalárnám við Escuela Superior de Música y Danza í Monterrey, Mexico, en lauk síðan mastersnámi í Codarts, Rotterdam. Daniel skipulagði tónlistarhátíðina “International Clarinet Festival of Monterrey” í þrjú ár samfleytt ásamt því að sinna stöðu klarinettuleikara í Orquesta Filarmónica del Desierto de Coahuila. 

Daniel hefur nú sest að á Íslandi og kennir á bæði klarinett og saxófón. Hann elskar að hlaupa í íslensku fjöllunum og hlakkar til að spila franska tónlist á Ólafsfirði

Diljá Sigursveinsdóttir

stundaði fiðlunám við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og síðar söngnám við Söngskólann í Reykjavík þaðan sem hún lauk burtfararprófi árið 1997. Diljá lagði stund á söngnám, fiðluleik og Suzuki-kennslufræði í Kaupmannahöfn og lauk bakkalárgráðu frá Det Kongelige Danske Musikkonservatorium árið 2004 og 2016 útskrifaðist hún með meistaragráðu frá Listaháskóla Íslands.

Lokaverkefni Diljár var tónleikhús í samvinnu við Kammerhópinn ReykjavíkBarokk sem bar yfirskriftina “Barokk í Breiðholtinu-Í gegnum rimlana” og var sýning byggð á tónlist kventónskálda frá miðöldum til barokktímans sem lifðu og störfuðu innan veggja klaustranna. Síðan hefur Diljá unnið þrjár tónleikhússýningar í samvinnu við Kammerhópinn ReykjavíkBarokk “Elisabeth og Halldóra, Bach og Grallarinn” 2017 og “Bréf Halldóru Guðbrandsdóttur” 2018 og “Sjókonur og snillingar” 2021. Diljá var hugmyndasmiður og verkefnastjóri nýrrar tónlistarhátíðar “Kona-Forntónlistarhátíð” sem fram fór í árið 2019 í Skálholti og árið 2021 í Hljómahöllinni Reykjanesbæ.

Diljá starfar sem Suzukifiðlukennari við Suzukideild Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og síðustu fjögur ár hefur Diljá leitt tilraunaverkefni á vegum Tónskóla Sigursveins, Hólabrekkuskóla og Fellaskóla. Diljá er fiðluleikari í Kammerhópnum ReykjavíkBarokk sem stofnaður var árið 2012 og í strengjakvartettinum Spúttnik sem stofnaður var árið 2019.

Einar Bjartur Egilsson

Einar Bjartur Egilsson hóf píanónám 7 ára í Tónlistarskólanum í Reykjahlíð við Mývatn. Síðar fluttist hann til Reykjavíkur og stundaði nám í Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar hjá Guðríði St. Sigurðardóttir og Önnu Málfríði Sigurðardóttur. Haustið 2010 hóf hann nám í Listaháskóla Íslands undir handleiðslu Peters Máté og útskrifaðist þaðan vorið 2013. Í janúar það ár lék hann einleik í píanókonsert F. Poulencs með Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Frá 2013 – 2015 stundaði hann meistaranám í Konservatoríinu í Maastricht, Hollandi hjá dr. Katiu Veekmans. Í desember 2014 hlaut hann styrk úr Minningarsjóði um Birgi Einarsson. Einar hefur samið tónlist fyrir nokkrar stuttmyndir t. d. þýsku myndina Windspiele og síðla árs 2015 gaf hann út sína fyrstu hljómplötu með eigin tónsmíðum sem nefnist Heimkoma. Hann hefur spilað á tónlistarhátíðum í Hollandi og á Íslandi og starfað með kórum bæði þar og hér heima.

Einar Bjartur Egilsson hóf píanónám 7 ára í Tónlistarskólanum í Reykjahlíð við Mývatn. Síðar fluttist hann til Reykjavíkur og stundaði nám í Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar hjá Guðríði St. Sigurðardóttir og Önnu Málfríði Sigurðardóttur. Haustið 2010 hóf hann nám í Listaháskóla Íslands undir handleiðslu Peters Máté og útskrifaðist þaðan vorið 2013. Í janúar það ár lék hann einleik í píanókonsert F. Poulencs með Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Elísabet Anna Dudziak

Elísabet Anna Dudziak hóf fiðlunám við Tónlistarskóla Rangæinga 7 ára gömul árið 2011. Kennari hennar var Ulle Hahndorf en árið 2016 tók Chrissie Telma Guðmundsdóttir við kennslunni. Árið 2019 hóf Elísabet nám við Tónlistarskóla Árnesinga og lauk þaðan framhaldsprófi vorið 2022 undir handleiðslu Maríu Weiss.

Haustið sama ár var leiðinni heitið í Listaháskóla Íslands þar sem Elísabet hefur lagt stund á fiðlunám undir leiðsögn Auðar Hafsteinsdóttur.

Elísabet Anna hefur tekið þátt í ýmsum verkefnum og spilað með hljómsveitum, meðal annars Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Ungfóníunni og Sinfóníuhljómsveit Suðurlands. Einnig hefur hún tekið þátt á námskeiðum bæði á Íslandi og erlendis, Alþjóðlegu tónlistarakademíunni í Hörpu, Tónlistarhátíð unga fólksins og Atlanta Festival Academy, svo dæmi séu nefnd.

Guðný Guðmundsdóttir & Gunnar Kvaran

Guðný Guðmundsdóttir fiðluleikari var 1. konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Ísland í áratugi. Jafnframt því hefur hún starfað sem kennari við Tónlistarskólann í Reykjavík,sem síðar varð Menntaskóli í Tónlist og við Listaháskóla Íslands þar sem hún var útnefnd heiðursprófessor árið 2018.

Á ferli sínum hefur Guðný komið fram sem einleikari víða um lönd og einnig verið gestakennari við virta tónlistarháskóla  erlendis.

Gunnar Kvaran sellóleikari var um árabil yfirmaður strengjadeildar Tónlistarskólans í Reykjavík og síðar prófessor í sellóleik  og kammertónlist við Listaháskóla Íslands. Hann hefur leikið einleik í mörgum virtum sölum erlendis og má þar nefna Carnegie recital Hall í New York, Wigmore Hall í London og Beethoven Haus í Bonn.

Þau Guðný og Gunnar hafa komið fram sem dúó á fjölmörgum tónleikum, nú síðast í Kaupmannahöfn í lok maí. Þau stofnuðu Tríó Reykjavíkur árið 1988, sem starfaði óslitið í 30 ár. Þau sáu um tónleikaraðir í  Hafnarborg, Menningar-og listamiðstöð Hafnarfjarðar og á Kjarvalsstöðum, Listasafni Reykjavíkur um árabil. Auk þess voru þau listrænir stjórnendur Bjartra sumarnátta, sem var glæsileg tónlistarhátíð í Hveragerði.

Stór hópur fyrrverandi nemenda þeirra gegna lykilstöðum í tónlistarheiminum bæði heima og erlendis.  Guðný og Gunnar hafa hlotið hinar ýmsu viðurkenningar og meðal þeirra Riddarakross hinnar íslensku Fálkaorðu.

Guito Thomas gítar og söngur

Guito Thomas er rokk-gítarleikari, lagasmiður og söngvari frá Brasilíu sem hefur búið hér á Íslandi sl. 15. ár. Tónlist hans er undir áhrifum frá Joe Satriani, Jimi Hendrix, Van Halen, U2, og Pink Floyd með hreim af Bossa Nova og Sömbu.

Frá árunum 2000 til 2006 komu frá honum þrjú albúm „Mil Maneiras Pra Dizer“, „Festa” and „Na Velocidade Dessa Rede”, öll í brasilískum anda. Fyrsta plata Guito var tilnefnd sem útgáfa ársins og eitt laga hans hljóðritað af EMI með þekktum listamönnum í Brasilíu. Með annarri plötunni stimplaði hann sig inn á tónlistarsviðið og við tóku fjölmörg tækifæri fyrir hann að koma fram og vinna í hljóðverum með öðrum listamönnum. Með þriðju plötu sinni komst hann svo inn á útvarpsstöðvar þar sem lög hans nutu vinsælda og ljóst var að hann hafði náð verulegum árangri á ferli sínum. Árið 2007, eftir neikvæða þróun í brasilískum tónlistariðnaði, flutti Guito til Íslands og nam við Tónskóla þjóðkirkjunnar orgelleik og kórstjórn. Hann lærði einnig sönglagagerð í Berklee College of Music í Boston þar sem hann lauk einnig meistaraprófi í gítarleik og síðar meistaraprófi frá Falmouth University í London. Hann hefur einnig lokið gráðu í uppeldis- og kennslufræðum frá Háskólanum á Akureyri.

Síðastliðin 15 ár hefur hann stundað kennslu í tónlistarskólum á Tröllaskaga og unnið sem organleikari og kórstjóri við Siglufjarðarkirkju. Ásamt starfi sínu þar sinnir hann einstökum verkefnum þar sem hann er fenginn til að koma fram á ýmsum stöðum víða um land þar sem hann hefur kynnt brasilíska tónlist samvinnu við aðra tónlistarmenn.

Haukur Gröndal

Haukur nam við Tónlistarskóla Garðabæjar og Tónlistarskóla FÍH á árunum 1984-1997. Kennarar hans við FÍH voru meðal annarra Sigurður Flosason og Stefán S. Stefánsson. Haukur tók burtfararpróf frá Tónlistarskóla FÍH vorið 1997. Árið 2004 lauk Haukur mastersgráðu í saxófónleik frá Rytmisk Musikkonservatorium í Kaupmannahöfn. Kennarar hans þar voru meðal annarra Frederik Lundin og Lars Möller. Haukur sótti einkatíma í New York 2001 og 2003 hjá meðal annarra Chris Speed, David Binney og David Kraukauer, Helsinki 2003 og Plovdiv í Búlgaríu 2006 hjá klarínettleikaranum Petko Radev.

Haukur hefur komið fram á tónleikum um öll Norðurlönd með ýmsum hljómsveitum, hlotið tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna tvívegis, leikið inná fjölmargar hljómplötur, unnið við upptökustjórn, útsett fyrir ýmsar hljómsveitir og svo mætti lengi telja.

Helga Pálína Brynjólfsdóttir

Helga Pálína Brynjólfsdóttir er Ólafsfirðingur en býr og starfar í Reykjavík. 

Hún útskrifaðist úr Textíldeild Listiðnaðarháskólans í Helsinki og kenndi eftir það textílhönnun og þrykk við Myndlista- og handíðaskóla Íslands, Listaháskóla Íslands og textíldeild Myndlistaskólans í Reykjavík.

Helga Pálína vinnur að margvíslegum textílverkum og bókverkum                                                          (sjá ARKIR: https://arkir.art/ ) og hefur tekið þátt í fjölda sýninga hér heima og erlendis.

Helga Þórarinsdóttir

Hrafnhildur Árnadóttir

Karel Tjörvi Ránarson Reina

Karel Tjörvi er nemandi á öðru ári í LHÍ sem er að læra grafíska hönnun. Hann sér um grafíkina og heimasíðuna fyrir Berjadaga.

Karla Nyc

Karla Nyc lifir og starfar í Stuttgart í Þýskalandi. Hún hóf ung nám í fiðluleik. Hún leikur með ýmsum hljómsveitum í Suðurþýskalandi. Sem dæmi má nefna: Waiblinger Kammerorchester og Tübinger Kammersolisten. Hún hefur haldið tónleika í Þýskalandi, Frakklandi, Sviss og Kína.

Katrín Karítas Viðarsdóttir

Katrín Karítas Viðarsdóttir hóf nám við Tónlistarskólann á Akureyri 5 ára gömul. Þar byrjaði hún á píanó en hóf svo fiðlunám ári síðar. Á unglingsárunum tók hún upp víóluna og er það aðalhljóðfærið hennar í dag. Frá Tónlistarskólanum á Akureyri lauk Katrín grunnprófi á píanó ásamt miðprófi á bæði fiðlu og víólu. 

Haustið 2021 flutti hún suður til þess að hefja nám við Listaháskóla Íslands undir leiðsögn Þórunnar Ósk Marinósdóttur. Í Listaháskólanum stundar Katrín tvöfalt háskólanám, í bæði Klassískri hljóðfærakennslu á víólu og Skapandi tónlistarmiðlun. 

Katrín hefur spilað í allskyns hljómsveitum líkt og Korda Samfónía, Ungfóníunni, Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands og hefur spilað með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands.

Kristjana Arngrímsdóttir

Árið 2000 gaf Kristjana út sína fyrstu hljómplötu, Þvílík er ástin og hefur hann notið mikillar hylli fyrir sönggleði og vandaðan flutning. Á þeim diski fékk hún til liðs við sig þá Daníel Þorsteinsson, píanóleikara, Jón Rafnsson bassaleikara og Kristján Eldjárn Þórarinsson, gítarleikara. Árið 2005 kom diskurinn Í húminu út sem er undir sterkum dönskum áhrifum en Kristjana bjó í Danmörku í fimm ár. Þar leitar hún fanga í dönskum söngvasjóði, syngur lög eftir Carl Nielsen eitt þekktasta tónskáld Dana og Bjarne Haar. Vísur og sálmar eftir ýmis höfuðskál Dana, allt frá Grundtvig til Halfdan Rasmussen í nýrri þýðingu Böðvars Guðmundssonar og Kristjáns E. Hjartarsonar. Einnig er að finna íslenskar þjóðlaga og söngperlur. Með henni á þeim disk spila þeir Jón Rafnsson, bassa, Örn Eldjárn, gítar, Tatu Kantomaa, harmonikka, Hjörleifur Valsson, fiðla og Örnólfur Kristjánsson selló. Á þriðju plötu Kristjönu, Tangó fyrir lífið, sem kom út árið 2011, kveður við nýjan tón, seiðandi tangóar frá Argentínu ásamt íslenskum og frumsömdum lögum. Hér steig Kristjana fram sem lagahöfundur og tvö laga hennar má finna á plötunni. Árið 2014 kom jólaplatan, Stjarnanna fjöld, út. Titillag og texti plötunnar er eftir Kristjönu. Útsetningar Örn Eldjárn og gítarleikur, Ösp Eldjárn, söngur, Lára Sóley Jóhannsdóttir, fiðla, Ella Vala Ármannsdóttir, horn, Petrea Óskarsdóttir, þverflauta Ásdís Arnardóttir, selló, Daníel Þorsteinsson, orgel, harmonikka, Páll Barna Szabo, fagott, Jón Rafnsson, kontrabassi, Frank Aarnink, ásláttur, Magnús Tryggvason Eliassen, trommur. Kristjana vinnur nú að sinni fimmtu útgáfu sem inniheldur hennar eigin tónsmíðar við eigin texta og annara og er hún væntanleg á þessu ári.

Margrét Jónsdóttir

Margrét Jónsdóttir er fædd og uppalin á Akureyri en á ættir að rekja til Ólafsfjarðar. Hún stundaði nám í Listiðnaðarskólanum í Kolding, Danmörku.

Margrét hefur unnið að leirlist allan sinn starfsferil, haldið einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga.

Vinnustofa hennar og gallerí eru í Gránufélagsgötu 48 á Akureyri.

Matthias Hemstock

Matthías hefur leikið á trommusett frá 9 ára aldri. Hann stundaði tónlistarnám í Tónlistarskóla FÍH og fór síðan til Boston til frekara náms í Berklee College of Music. Hann lék með nokkrum af vinsælli rokkhljómsveitum Íslands um árabil en snéri sér æ meira að jazz- og spunatónlist af ýmsu tagi sem hafa verið helstu viðfangsefnin síðustu tvo áratugi. Hann hefur einnig starfað sem lausráðinn slagverksleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands og tekið þátt í verkefnum með ýmsum kammersveitum. Undanfarin misseri hefur Matthías leikið í sveit Óskar Guðjónssonar, MOVE, tíóinu Richard Andersson NOR og meðlimum í kammersveitinni Cauda Collective svo eitthvað sé nefnt. Hann lék einnig reglulega með tónskáldinu og hljómborðsleikaranum Jóhanni Jóhannssyni á árunum 2000 til 2012. Matthías kennir á trommusett og slagverk í Menntaskóla í tónlist (MÍT) og Listaháskóla Íslands.

Ólöf Sigursveinsdóttir

Ólöf Sigursveinsdóttir er listrænn stjórnandi Berjadaga. Hún fór í fyrsta sellótímann fimm ára í Tónskóla Sigursveins. Kennarar hennar voru Nora Kornbluh og Bryndís Halla Gylfadóttir og síðar Gunnar Kvaran við Tónlistarskólann í Reykjavík. Ólöf hélt utan til náms við Tónlistarháskólann í Stuttgart hjá Hans Häublein og lauk diplom og framhaldsprófi (KA) með hæstu einkunn. Samhliða hlaut Ólöf þjálfun í hljómsveitar- og kórstjórn og starfaði við tónlist í Þýskalandi til ársins 2008.

Ólöf hefur haldið einleikstónleika í Danmörku, Sviss og Þýskalandi og leikið einleikskonsert með Sinfóníuhljómsveit áhugamanna og Sinfóníuhljómsveit Austurlands. „Hljóðmynd – sjötta svítan“ er dæmi um verkefni sem Ólöf hefur unnið í samstarfi við Sigtrygg Bjarna Baldvinsson myndlistarmann þar sem flutningur sjöttu sellósvítu Bachs rímar við samnefnda þrívíddar-rimlaverk Sigtryggs. Ólöf er einn stofnenda ReykjavíkBarokk hópsins og stofnandi Íslenskra strengja, kammersveitar sem hún jafnframt stjórnar. Auk þess að starfa sem sellókennari við Tónskóla Sigursveins og Tónlistarskóla Reykjanesbæjar leikur Ólöf reglulega einleik og samleik með ýmsum listamönnum. Ólöf lék einleikstónleika með Slava Poprugin í Norðurljósum í Hörpu í nóvember sl.. Hún hefur skipulagt Berjadaga tónlistarhátíð frá árinu 2013. Þá tók hún við að föður sínum og systur, Diljá.

Óskar Guðjónsson

Frá unglingsárum hefur Óskar Guðjónsson verið eftirsóttur saxofónleikari í íslensku tónlistarstórfjölskyldunni. Spunatónlist, jazz (djass), stendur hjarta hans næst. Á þeim vettvangi hefur hljómsveitin ADHD vakið verðskuldaða athygli innan og utan landsteina, tónleikaferðir um Evrópu norðanverða skipa stóran sess í lífi hljómsveitarmeðlima. Þeir eru, auk Óskars, bróðir hans  Ómar gítarleikari, Magnús Tryggvason Elíasson trommuleikari og Tómas Jónsson hljómborðsleikari. Samstarfs Óskars og Skúla Sverrissonar, tónskálds og bassaleikara, hefur einnig verið gæfuríkt og galopnað augu og eyru Óskars fyrir fleiri möguleikum jazztónlistar. Afraksturinn er tvær plötur og ótal tónleikar. 

Richard Schwennicke

Starfsárið 2023-2024 verður Richard Schwennicke fastráðinn hljómsveitarstjóri og yfirmaður tónlistardeildarinnar í Staatstheater, Darmstadt. Hann mun koma til með að stjórna Eugene Onegin, Tales of Hoffmann og Elektru í Darmstadt á komandi starfsári ásamt því að koma fram sem hljómsveitarstjóri í Staatstheater Hannover, en hann var meðal starfsmanna þar árið 2020 til 2023. 

Richard stjórnaði og flutti mikið úrval þekktra tónverka í Hannover og var tónlistarstjóri í sviðsetningum á borð við “Beginn” (heimsfrumflutningur; tónlist eftir Báru Gísladóttur, leikstýrt af Ben Riepe) og “Pinocchio” (tónlist eftir Luciu Ronchetti, leikstýrt af Mariu Kwaschik). Hann hefur einnig starfað með kammersveitinni “Stegreif” í Neuköllner Óperunni, Berlín. Árið 2023 frumflutti Neuköllner Óperan tónverkið “Wüstinnen” eftir Richard (leikstýrt af Sommer Ulrickson). 

Richard stundaði píanónám hjá próf. Gerrit Zitterbart, hljómsveitarstjórn hjá próf. Martin Brauß og kammermúsík hjá próf. Jan Philip Schulze í Hanover. Á meðan hann stundaði námið tók hann þátt í fjölmörgum námskeiðum (masterclass) hjá Joana Mallwitz, Donald og Vivien Weilerstein, og naut leiðsagnar Nils Mönkemeyer, próf. Andreas Felber og Joachim Heintz. Richard hefur hljóðritað tónlist fyrir ýmis útvarpsfyrirtæki í Þýskalandi og erlendis, frumflutt verk eftir tónskáld á borð við Wolfgang Rihm, Lisa Streich, Feliz Macahis og Báru Gísladóttur. Einnig hefur hann komið fram víða og má þar nefna Þýskaland, Austurríki, Spán, Sviss, Litháen, Bretland og Ísland. 

Rodrigo Lopes

Rodrigo Lopes er tónlistarkennari í þremur tónlistarskólum, á Akureyri, Fjallabyggð og við Tónlistarskóla Eyjafjarðar. Þar kennir hann trommu- og slagverksleik. Sem tónlistarmaður er Rodrigo Lopes fjölhæfur en mesta rækt hefur hann lagt við ýmis afbrigði af tónlist Rómönsku Ameríku.

Sarah Dabby

Sarah Dabby er fjölhæfur fiðluleikari og víóluleikari sem hefur komið víðsvegar fram með ótal hljómsveitum og kammerhópum. Má þar nefna Marin Symphony, Composers Arrangers Performers Orchestra (CAPO), Lamplighters Music Theater, Jazz Mafia, Deltron 3030, Whitney, St Panther, The Family Crest og Eclecta Quartet. Sarah flutti til Reykjavíkur á tímum faraldursins, en eyðir nú tíma sínum bæði á Íslandi og í Kaliforníu. Hlustið á flutning hennar hér.

Sean_OBrien

Sean Patrick O'Brien

Sean Patrick O’Brien er bandarískur/kanadískur listamaður búsettur á Íslandi. Verk hans eru undir áhrifum af hans eigin löngun til þess að uppgötva og skilja heiminn okkar. Listrænar rannsóknir hans ná oftar en ekki inn á svið vísindalegra tilrauna, en með þessu móti notar hann listina til þess að endurspegla náttúruleg fyrirbæri. 

“The Desire to Fly” er sýning í Pálshúsi sem fagnar íslenskri fuglaflóru og löngun mannsins til þess að upphefja sig til flugs. Í þessum sama anda bjóða verk Sean fólki af öllum aldri að leggja af stað í eins konar flugferð þar sem ferðast er á milli heima töfra og uppgötvunar. 

Eftir að hafa lokið listnámi við “The Studio for Interrelated Media” í Massachusetts College of Art hlaut Sean MFA gráðu í sviðslistum frá Listaháskóla Íslands árið 2021. Sean er nú búsettur í Reykjavík og hefur verið virkur í íslenskri lista- og tónlistarsenu undanfarin ár. Hann hefur einnig tekið þátt í fjölmörgum verkefnum víðsvegar um heiminn.

Sigríður Bjarney Baldvinsdóttir

hóf ung nám í fiðluleik við Tónlistarskóla Akureyrar. Á árunum 1993-2001 stundaði hún framhaldsnám við Tónlistarháskóla víða um Evrópu. Þar á meðal í Krakow í Póllandi, Barcelona á Spáni og Hannover og Mainz í Þýskalandi. Eftir nokkurra ára tímabil í Reykjavík, þar sem hún spilaði reglulega með bæði Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og ýmsum kammermúsíkhópum ásamt því að kenna við Tónlistarskóla Mosfellsbæja, flutti hún til Stuttgart í Þýskalandi.

Hún starfaði í Suðurþýskalandi sem fiðluleikari og kennari til ársins 2017. Síðan þá býr hún í Reykjavík og spilar í strengjakvartettinum Spúttnik og ýmsum hljómsveitum og kammermúsikhópum, ásamt því að kenna á fiðlu við Tónmenntaskóla Reykjavíkur og Tónlistarskóla Seltjarnarness.

Sigrún Valgerður Gestsdóttir

Sigrún hóf söngnám hjá Guðrúnu Sveinsdóttur og Engel Lund við Tónlistarskólann í Reykjavík. Framhaldsnám stundaði hún við Royal Academy of Music í London hjá Marjorie Thomas, í Kalamazoo, Bandaríkjunum í söngstúdíói Fay Smith og við Tónlistarháskólann í Vínarborg. Sigrún hefur komið fram með Kammersveit Reykjavíkur, sungið hlutverk í Íslensku óperunni, starfað með sönghópnum Hljómeyki og komið fram á tónleikum hér heima og erlendis. Sigrún kennir við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar.

Sigurlaug Eðvaldsdóttir

Sigurlaug byrjaði fiðlunám hjá Önnu Rögnvalds og svo hjá Gígju Jóhannsdóttur í Barnamúsíkskólanum.Útskrifaðist úr Tónlistarskóla Reykjavíkur með einleikarapróf undir handleiðslu Guðnýjar Guðmundsdóttur.

Bachelor og Masternám hjá Anítu Kavafian í Manhattan School of Music í New York, þar sem hún fékk viðurkenningu fyrir”musical and Human endowment”.

Síðan nældi hún sér í hljómsveitar og lífsreynslu í Mexíkó. Kom svo heim 1994 og hefur verið í Sinfóníuhljómsveit Íslands síðan 1996. Auk þess hefur hún verið svo gæfusöm að vera með í Kammersveit Reykjavíkur, Íslensku Óperunni og komið fram á vegum Kammermúsík Klúbbsins sem dæmi má nefna.

Það er mikill heiður og hjartahlýjandi að fá að vera með Íslenskum Strengjum. Að vera innan um allt þetta vel skólaða og hæfileikaríka fólk. Ég vil vera eins og fluga á vegg ,fylgjast með og bæta mig vonandi sem manneskja og tónlistarmaður.

Sólveig Thoroddsen

Sólveig Thoroddsen Jónsdóttir fæddist í Reykjavík árið 1989. Hún lærði hér hörpuleik hjá Marion Herrera og Sophie Schoonjans uns hún hélt utan til náms haustið 2009 til Cardiff í Wales. Þar lauk hún bakkalárnámi í klassískum hörpuleik við Royal Welsh College of Music & Drama með Caryl Thomas sem aðalkennara. Hún naut einnig leiðsagnar Meinir Heulyn og Valerie Aldrich-Smith. Fyrstu kynni hennar af þríraðahörpu voru í gegnum velska hörpuleikarann Robin Huw Bowen sem hún sótti nokkra tíma til. Þetta vakti áhuga hennar á eldri gerðum hörpunnar og til þess að fræða sig frekar í þeim efnum hóf Sólveig meistaranám í sögulega upplýstum flutningi á slíkar hörpur við Hochschule für Künste í Bremen í Þýskalandi. Þar var aðalkennari hennar Margit Schultheiß. Sólveig lauk námi þar í júlí 2016. Síðan hefur hún starfað sem hörpuleikari í nokkrum mismunandi löndum og komið fram á ýmsum hátíðum í Evrópu og Mið-Ameríku.

Sigursveinn Magnússon

Að loknu nám hér heima í Tónlistarskólanum í Reykjavík og Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar stundaði Sigursveinn Magnússon framhaldsnám við Royal Academy of Music í London og síðar við Western Michigan University í Bandaríkunum. Þessi ár lagði hann stund á nám í hornleik, píanóleik og hljómsveitarstjórn. Síðar nam hann við Tónlistarháskólann í Vínarborg og dvaldi eitt námsár í Danmörku. Ásamt störfum sínum sem tónlistarskólastjóri hefur Sigursveinn starfað að félags- og skipulagsmálum á sviði tónlistar, verið virkur sem útsetjari, kvæðamaður, kórsöngvari og meðleikari og stjórnað hljómsveitum og kórum.

Steina Kristín Ingólfsdóttir

Steina Kristín kemur frá Álftanesi og er nýútskrifuð með mastersgráðu í víóluleik, frá Syddansk Musikkonservatorium í Danmörku. Áður en leiðin lá til Danmerkur lauk hún framhaldsprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og bakkalárgráðu frá Listaháskóla Íslands undir leiðsögn Þórunnar Óskar Marinósdóttur.

Steina spilar reglulega með kammerhópum og hljómsveitum og hefur t.a.m. verið varamaður hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands frá árinu 2015. Hún er m.a. meðlimur í Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og hljómsveitinni Kaisin sem flytur frumsamda tónlist, innblásna úr ýmsum ólíkum áttum.

Sverrir Guðjónsson

Sverrir Guðjónsson hóf sinn feril ungur að aldri með útgáfu tveggja vinsælla hljómplatna. Lærði síðar og starfaði sem kontratenór í Lundúnaborg, með áherslu á samtíma-og fyrri tíma tónlist. Nútímatónskáld hafa samið tónlist fyrir hans raddsvið, sem Sverrir hefur frumflutt og hljóðritað ásamt ýmsum tónlistarhópum. Einsöngsdiskur hans “Grafskrift/Epitaph” var valinn einn af geisladiskum ársins hjá Gramophone Magazine (janúar 2000). Árið 2020 gaf Sverrir út á tveimur vinyl plötum, “Rökkursöngvar/Twilight Songs”, sem er samstarf við íslensk tónskáld, sem sömdu sérstaklega fyrir hans raddsvið. Gegnum fjölda ára hefur hann átt náið samstarf við líbanska/franska kvikmyndagerðarmanninn Jacques Debs. Heimildarmyndin (90 mín) “Walking on Sound” var framleidd af Arte TV og Les Films d’Ici. Á undanförnum árum hefur Sverri hlotnast verðlaun á alþjóðlegum hátíðum fyrir hljóðverk eða svonefnd ‘sound drama’, þar sem raddskúlptúrar, rödd, tónlist og ljóð skapa andrúm og tilfinningalega framvindu: “Ophelia’s Harp” (2018) ; “RAGNARÖK-The Prophecy” (2019); “Farewell to Gravity” (2023) Samstarf við Hauk Gröndal og “Frelsissveit Íslands” hófst árið 2020, þegar hið margverðlaunaða tónverk Hauks, “Four Elements”, var frumflutt á Jazzhátíð í Hörpu. Verkið var hljóðritað og filmað fyrir Ríkissjónvarpið. Tónverkið “Aether” var síðan frumflutt á Jazzhátíð í Hörpu árið 2022 ásamt finnska píanistanum Kari Ikonen, og var einnig filmað og hljóðritað. Nú, á Berjadögum, er komið að frumflutningi á nýju tónverki Hauks Gröndals, í flutningi “Frelsissveitar Íslands”.

Tinna Þorsteinsdóttir

Tinna Þorsteinsdóttir er með víðtæka reynslu á sviði nýrrar tónlistar og hefur frumflutt um 100 verk sem samin hafa verið sérstaklega fyrir hana, þar af 5 einleikskonserta. Hún vinnur náið með mörgum íslenskum tónskáldum og er liðtæk í tilraunatónlistarsenunni hér heima og erlendis. Hún hefur haldið fjölda einleikstónleika og haldið masterklassa í Evrópu, Bandaríkjunum og Asíu. Menntuð sem klassískur píanóleikari þá spilar Tinna allar aldir píanóbókmenntanna, þótt 21sta öldin sé hennar aðal ástríða. Undirbúið píanó, rafhljóð, dótapíanó, leikhúsverk og gjörningar rata gjarnan inn á efnisskrár hennar. Tinna stundaði framhaldsnám í Hannover og Münster í Þýskalandi og síðar í Boston við New England Conservatory of Music. Hún hlaut Fulbright styrk og Thor Thors styrk frá The American-Scandinavian Foundation. Tinna hlaut Menningarverðlaun DV í flokki tónlistar árið 2013.

Victoria Tarevskaia

Victoria Tarevskaia sellóleikari stundaði nám í Musical Special School E. Koka í Chisinau í Moldóvu 1978-1988. Hún nam síðan í Conservatiore N. Rimsky-Korsakov í Saint Petersburg frá 1989-1991. Hún útskrifaðist með mastersgráðu í sellóleik frá Tónlistarakademíu G. Musichescu í Chisinau 1994. Eftir áheyrnarprufu var hún ráðin til Moldavian Philharmonic Symphony Orchestra árið 1992. Í starfi sínu þar tók hún þátt í um 500 tónleikum og tónleikaferðum til ýmissa landa Evrópu. Hún var fulltrúi Moldóvu í International Black Sea Chamber Orchestra 1995-1999. Hún hefur verið búsett á Íslandi frá árinu 1999 og starfað sem sellókennari og lausamaður hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfonia Nord og Íslensku Óperunni. Einnig hefur hún tekið þátt í öðrum verkefnum sem sellóleikari, svo sem með kammerhópum, kórum og einsöngvurum. Hún starfar meðal annars í tríóinu Aftanblik og Tríó Vest.