Listamennirnir

Ásdís Arnardóttir selló

Ásdís Arnardóttir sellóleikari hefur búið á Akureyri frá árinu 2007. Hún kennir við Tónlistarskólann á Akureyri og Tónlistarskóla Eyjafjarðar og leikur með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Hún hefur á þessum tíma verið virkur þátttakandi í tónlistarlífinu á Norður- og Austurlandi og komið fram á fjölmörgum viðburðum á svæðinu eins og Sinfóníuhljómsveit Austurlands, Tólf tóna korteri í Listasafni Akureyrar, Kirkjulistaviku í Akureyrarkirkju, Barokksmiðju Hólastiftis, Sumartónleikum á Hólum, Norðlenskar konur í tónlist. Hún hefur lagt sig fram um að iðka kammertónlist og verið virk í að frumflytja verk eftir íslensk tónskáld.
Ásdís var Bæjarlistamaður Akureyrar árið 2020. Hún var formaður Tónlistarfélags Akureyrar 2013-2023.
Áður en Ásdís flutti norður starfaði hún við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og Suzukitónlistarskólann í Reykjavík. Hún var með samning við Sinfóníuhljómsveit Íslands 2007-2010, spilaði með Íslensku Óperunni og tók þátt í ýmis konar samspili.
Ásdís er með mastersgráðu í sellóleik frá Boston University.
Ásdís spilar í Brimsölum föstudaginn kl. 19:00 Námuvegur 8, Ólafsfirði. Húsið opnar kl. 18:30.

Elmar Gilbertsson tenór

Elmar Gilbertsson útskrifaðist úr Söngskóla Sigurðar Dementz 2007 og lauk meistarnámi í óperusöng við Tónlistarháskólann í Amsterdam og Konunglega tónlistarháskólann í Haag. Aðalkennari hans var Jón Þorsteinsson. Hann hefur sungið í óperuhúsum og tónleikasölum víða um Evrópu og er nú fastráðinn við Óperuna í Stuttgart. Hann hefur m.a. farið með hlutverk Taminos og Monostatos í Töfraflautunni, Dons Ottavio í Don Giovanni, Ferrandos í Cosí fan tutte, Alfreds í Leðurblökunni, Elvinos í La Sonnambula, Nerones í Krýningu Poppeu, Kúdrjás í Katja Kabanova, prinsins í Öskubusku, Mímis í Rínargulli, Hertogans af Mantua í Rigoletto og Lenskys í Evgéní Ónégin. Elmar hlaut Grímuverðlaunin fyrir söng í Ragnheiði og Don Giovanni og Íslensku tónlistarverðlaunin 2014 og 2016 í flokki sígildrar tónlistar.
Elmar Gilbertsson tenór syngur í Ólafsfjarðarkirkju nk. laugardag kl. 20:00. Hér á myndinni syngur hann senu úr La traviata ásamt Sigrúnu Pálmadóttur sópran í Tjarnarborg árið 2019. Meðleikari Elmars nk. laugardag er Einar Bjartur Egilsson píanóleikari. Húsið opnar kl. 19:30.
Ljósmyndari: Ólafur Kr. Ólafsson tekið á Berjadögum 2019

Einar Bjartur Egilsson píanó

Einar Bjartur Egilsson stundaði nám við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar, Listaháskóla Íslands og Konservatoríið í Maastricht, Hollandi. Hann hefur samið kvikmyndatónlist, spilað á tónlistarhátíðum í Hollandi og á Íslandi og starfað með ýmsum kórum bæði þar og hér heima.
Núorðið starfar Einar aðallega sem meðleikari með ýmsum tónlistarmönnum, nemendum og kórum. Hann heldur tónleika reglulega ásamt því að spila einleiksverk annað slagið. Undanfarin ár hefur hann gefið út tvær hljómplötur með píanóverkum eftir svissneska tónskáldið Frank Baumann auk tveggja breiðskífa með eigin verkum, Heimkomu árið 2015 og Kyrrð árið 2022.
Einar Bjartur spilar í Ólafsfjarðarkirkju nk. laugardag kl. 20:00. Hann leikur með Elmari Gilbertssyni tenórsöngvara og Ólöfu Sigursveinsdóttur sellóleikara. Húsið opnar kl. 19:30.
Ljósmyndari: Ingvar Haukur Guðmundsson kvikmyndagerðarmaður

Ólöf Sigursveinsdóttir selló

(see english below)

Ólöf Sigursveinsdóttir er listrænn stjórnandi Berjadaga. Hún fór í fyrsta sellótímann fimm ára í Tónskóla Sigursveins. Kennarar hennar voru Nora Kornbluh og Bryndís Halla Gylfadóttir og síðar Gunnar Kvaran við Tónlistarskólann í Reykjavík. Ólöf hélt utan til náms við Tónlistarháskólann í Stuttgart hjá Hans Häublein og lauk diplom og framhaldsprófi (KA) með hæstu einkunn. Samhliða hlaut Ólöf þjálfun í hljómsveitar- og kórstjórn og starfaði við tónlist í Þýskalandi til ársins 2008.

Ólöf hefur haldið einleikstónleika í Danmörku, Sviss og Þýskalandi og leikið einleikskonsert með Sinfóníuhljómsveit áhugamanna og Sinfóníuhljómsveit Austurlands. „Hljóðmynd – sjötta svítan“ er dæmi um tengingu listgreina sem Ólöf hefur unnið í samstarfi við Sigtrygg Bjarna Baldvinsson myndlistarmann þar sem flutningur sjöttu sellósvítu Bachs rímar við þrívíddar-rimlaverk Sigtryggs. Ólöf er einn stofnenda ReykjavíkBarokk og stofnaði strengjasveitina Íslenska strengi sem hún jafnframt stjórnar. Auk þess að starfa sem sellókennari við Tónskóla Sigursveins og Tónlistarskóla Reykjanesbæjar leikur Ólöf reglulega einleik og samleik. Ólöf hefur haldið tvenna í Norðurljósum í Hörpu síðustu ár þarsem hún vann með  píanóleikaranum Slava Poprugin og Einari Bjarti Egilssyni. Hún hefur skipulagt Berjadaga tónlistarhátíð frá árinu 2013.

//

Cellist Ólöf Sigursveinsdóttir is an artistic director, organizer and chairman of the Association Berjadagar Music Festival. She works as a cellist and original creator in the cultural music scene in Reykjavík, Iceland, aswell as organizing the annual festivities of Berjadagar Music Festival. For her it is  most important that music is a force of peace and unification, and not least of all, it is subjective to her, that music is a sustainable art that renews itself; stands for itself wherever it sounds. Possibilities in music performance and sharing of music is therefor a daily subject to her. The goodwill and great interest of residents and businesses situated in Ólafsfjörður and Reykjavík has been significant support for Berjadagar. F.ex. Jón Þorsteinsson (1951-2024), Ásta Sigurfinnsdóttir, Anna María Guðlaugsdóttir, María Bjarney Leifsdóttir and Snjólaug Kristinsdóttir. Photographers Ólafur Kr. Ólafsson, Sigursveinn Magnússon, Gudný Ágústsdóttir and Arnold Björnsson.

Sigursveinn Kristinn Magnússon píanó og Sigrún Valgerður Gestsdóttir sópran

Sigursveinn: Að loknu nám hér heima í Tónlistarskólanum í Reykjavík og Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar stundaði Sigursveinn Magnússon framhaldsnám við Royal Academy of Music í London og síðar við Western Michigan University í Bandaríkunum. Þessi ár lagði hann stund á nám í hornleik, píanóleik og hljómsveitarstjórn. Síðar nam hann við Tónlistarháskólann í Vínarborg og dvaldi eitt námsár í Danmörku. Ásamt störfum sínum sem tónlistarskólastjóri hefur Sigursveinn starfað að félags- og skipulagsmálum á sviði tónlistar, verið virkur sem útsetjari, kvæðamaður, kórsöngvari og meðleikari og stjórnað hljómsveitum og kórum.

Sigrún: Sigrún hóf söngnám hjá Guðrúnu Sveinsdóttur og Engel Lund við Tónlistarskólann í Reykjavík. Framhaldsnám stundaði hún við Royal Academy of Music í London hjá Marjorie Thomas, í Kalamazoo, Bandaríkjunum í söngstúdíói Fay Smith og við Tónlistarháskólann í Vínarborg. Sigrún hefur komið fram með Kammersveit Reykjavíkur, sungið hlutverk í Íslensku óperunni, starfað með sönghópnum Hljómeyki og komið fram á tónleikum hér heima og erlendis. Sigrún kennir við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar.

Gunnhildur Halla Guðmundsdóttir selló

Gunnhildur Halla Guðmundsdóttir lauk lokaprófi í sellóleik við 6 ára diplom/solistlinje frá
Tónlistarháskólanum í Kaupmannahöfn þar sem hennar aðalkennari var Erling Blöndal
Bengtsson. Hún hefur einnig verið við nám víðar m.a.hjá William Pleeth í London og Uzi
Wiesel í Tel Aviv.
Gunnhildur bjó og starfaði erlendis í 26 ár. Á þeim tíma frumflutti hún ógrynni verka, bæði
með ólíkum tónlistarhópum en einnig sem einleikari þar sem mörg þeirra voru fyrir einleiks
selló. Vann hún þá oft í nánu samstarfi við tónskáldin. Hún er virkur kammermúsík flytjandi
og hefur spilaði í mörgum ólíkum sinfóníuhljómsveitum bæði hér heima og erlendis og var
lengst af með fasta stöðu í Kammersveit í Uppsala og kenndi kammermúsík og sellóleik við
Háskólann í Uppsölum.
Fyrir 14 árum flutti hún aftur til Íslands og hefur á þeim tíma helgað sig að mestu kennslu þó
svo að hún hafi einnig spilað með ólíkum kammerhópum, í Borgarleikhúsinu og öllum
þremur sinfóníuhljómsveitum landsins.

Hrafn Heiðar Guðmundsson selló

Hrafn Heiðar hóf sellónám í Tónlistarskólanum á Akureyri 2005 og lærði þar hvað lengst hjá Ásdísi Arnardóttur. Hann stundaði frekara nám við Listaháskóla Íslands í hljóðfæraleik hjá Sigurði Bjarka Gunnarssyni og útskrifaðist þaðan vorið 2023. Í dag kennir Hrafn við Tónlistarskóla Egilsstaða en utan þess lærir hann þroskaþjálfafræði við HÍ.