Listamennirnir

Sigríður Ósk Kristjánsdóttir

Sigridur Ósk Kristjánsdóttir mezzo-sópran lauk söng- og píanókennaranámi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og óperudeild, Artist Diploma og meistaragráðu frá Royal College of Music í London. Sigríður Ósk syngur reglulega í óperum, óratoíum og á ljóðatónleikum hérlendis og erlendis.  Sigríður hefur sungið óperuhlutverk m.a. með Glyndebourne Óperunni, English National Opera, English Touring Opera, Iford Opera, Classical Opera og Íslensku Óperunni þar sem hún söng m.a. hlutverk Rosinu í Rakaranum og Floru Bervoix í La Traviata. Hún hefur verið einsöngvari m.a. með: Mótettukórnum, Dómkórnum, Kór Langholtskirkju, Óperukórnum í Reykjavík, Karlakór Reykjavíkur og Fóstbræðrum. Sigríður Ósk hefur komið fram sem einsöngvari í tónleikasölum eins og Royal Albert Hall, Kings place og Cadogan Hall í London en þar söng hún ásamt Dame Emma Kirkby, tónleikunum var útvarpað á Classic FM. Með Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur Sigríður Ósk sungið í Klassíkinni okkar árið 2017 og 2018 og nýverið var hún meðal einsöngvara í 9. Sinfóníu Beethovens, Óðinum til gleðinnar.  Sigríður er meðlimur í barokk-bandinu Symphonia Angelica þau komu m.a. fram á Listahátíð í Reykjavík 2016 og á Norrænu tónleikunum Concerto Grosso-Viking Barokk sem fóru fram í Oslo Konserthus, Berwaldhallen í Stokkhólmi og Musiikkitalo í Helsinki árið 2019.Sigríður er einnig meðlimur í Tindru. Sigríður stendur árlega fyrir jólatóneikunum Sígildum jólum, hjá sumum er það er orðin hefð að sækja þá tónleika í aðventunni.  Söng Sigríðar má heyra á geisladiski “Engel Lund’s Book of Folksongs”, Nimbus Records.  Einnig á geisladisknum Með vorið í höndunum.  Sigríður var tilnefnd til Íslensku Tónlistarverðlaunanna árin 2016, 2017, 2018 og 2021.

Hrólfur Sæmundsson

Hrólfur lauk meistaragráðu í einsöng við New England Conservatory í Boston vorið 2001 með hæstu einkunn, þar sem aðalkennarar hans voru Susan Clickner og Mark St. Laurent. Áður hafði hann lokið burtfararprófi frá Söngskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Guðmundar Jónssonar og Ólafs Vignis Albertssonar. Hrólfur er um þessar mundir fastráðinn við óperuhúsið í Aachen í Þýskalandi, en þar hefur hann m.a. sungið hlutverk Papagenos, titilhlutverkin í Evgení Onegin og Pelleas og Melisande; Leporello í Don Giovanni, Sharpless í Madame Butterfly, Ford í Falstaff, Dandini í Öskubusku og greifann í Brúðkaupi Fígarós. Gagnrýnendur ytra hafa lofað frammistöðu Hrólfs í þessum krefjandi hlutverkum og í vor mun hann syngja sitt fyrsta Wagner hlutverk; Kurwenal í Tristan og Isolde. Á næstunni syngur hann hlutverk Escamillo, titilhlutverkið í Rakaranum í Sevilla, og hlutverk Paolo í Simone Boccanegra. Í vör söng hann hlutverk Schaunards í La Boheme með Íslensku Óperunni. Af öðrum hlutverkum Hrólfs má nefna,Eneas í Dido & Eneas, Neró í Poppeu, Kaspar í Galdraskyttunni í Þjóðleikhúsinu á Listahátíð og hlutverk Gests í samnefndri óperettu.

Hrólfur hefur komið fram á fjölda tónleika hérlendis, í Bandaríkjunum, Svíþjóð, Frakklandi, Þýskalandi og Danmörku. Árið 2010 kom út geisladiskur þar sem hann syngur ásamt fleirum verk eftir Sir John Tavener, en diskurinn hlaut mikið lof í breskum fjölmiðlum. Áður hefur komið út geisladiskur með Hrólfi þar sem hann meðal annarra syngur tónlist eftir Gunnar Reyni Sveinsson. Hrólfur var stofnandi og listrænn stjórnandi Sumaróperunnar sem beitti sér fyrir því að koma ungu listafólki á framfæri. Hann hlaut listamannalaun árið 2007.

Ellen Kristjánsdóttir

Ellen fæddist í San Francisco í Kaliforninu í Bandaríkjunum og þar ólst hún upp fyrstu sex árin.[1] Foreldrar hennar voru Kristján Ingi Einarsson (1922-1977) byggingatæknifræðingur og myndlistamaður og Sigríður Ágústa Söebech (1922-2003) bankastarfsmaður.[2] Maki Ellenar er Eyþór Gunnarsson tónlistarmaður og eiga þau fjögur börn.

Ellen hóf söngferil sinn í hljómsveitinni Tivolí sem hún stofnaði ásamt Friðriki Karlssyni. Hún hélt til Bandaríkjanna þegar hún var 17 ára gömul og dvaldist þar í nokkur ár. Þegar hún fluttist aftur til Íslands hóf hún að syngja með hljómsveitunum Mannakorn og Ljósin í bænum.[3] Síðar söng hún með Borgardætrum og hefur einnig sungið talsvert með bróður sínum, Kristjáni Kristjánssyni KK.

Eitt þekktasta lagið sem Ellen hefur sungið er When I think of angels sem bróðir hennar, tónlistarmaðurinn KK samdi um systur þeirra sem lést um aldur fram í bílslysi.

Ólöf Sigursveinsdóttir

Ólöf Sigursveinsdóttir er listrænn stjórnandi Berjadaga. Hún fór í fyrsta sellótímann fimm ára í Tónskóla Sigursveins. Kennarar hennar voru Nora Kornbluh og Bryndís Halla Gylfadóttir og síðar Gunnar Kvaran við Tónlistarskólann í Reykjavík. Ólöf hélt utan til náms við Tónlistarháskólann í Stuttgart hjá Hans Häublein og lauk diplom og framhaldsprófi (KA) með hæstu einkunn. Samhliða hlaut Ólöf þjálfun í hljómsveitar- og kórstjórn og starfaði við tónlist í Þýskalandi til ársins 2008.

Ólöf hefur haldið einleikstónleika í Danmörku, Sviss og Þýskalandi og leikið einleikskonsert með Sinfóníuhljómsveit áhugamanna og Sinfóníuhljómsveit Austurlands. „Hljóðmynd – sjötta svítan“ er dæmi um verkefni sem Ólöf hefur unnið í samstarfi við Sigtrygg Bjarna Baldvinsson myndlistarmann þar sem flutningur sjöttu sellósvítu Bachs rímar við samnefnda þrívíddar-rimlaverk Sigtryggs. Ólöf er einn stofnenda ReykjavíkBarokk hópsins og stofnandi Íslenskra strengja, kammersveitar sem hún jafnframt stjórnar. Auk þess að starfa sem sellókennari við Tónskóla Sigursveins og Tónlistarskóla Reykjanesbæjar leikur Ólöf reglulega einleik og samleik með ýmsum listamönnum. Ólöf lék einleikstónleika með Slava Poprugin í Norðurljósum í Hörpu í nóvember sl.. Hún hefur skipulagt Berjadaga tónlistarhátíð frá árinu 2013. Þá tók hún við að föður sínum og systur, Diljá.

Ármann Helgason

Ármann Helgason kemur fram á Berjadögum laugardaginn 15. júní kl. 20 í Tjarnarborg. Ármann er klarinettuleikari og kemur nú í þriðja sinn á Berjadaga. Í þetta sinn kemur hann fram ásamt færeyska píanóleikaranum Jóhannesi Andreasen. Ármann hefur átt fjölbreyttan feril sem einleikari, kammermúsíkant og hljómsveitarspilari með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Íslensku Óperunni, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, kammerhópnum Camerarctica og ýmsum öðrum hópum, m.a. Caput, Hnúkaþey og færeyska kammerhópnum Aldubáran. Ármann stundaði nám í klarinettuleik við Tónlistarskólann í Reykjavík og í London og París og hefur hann oftsinnis hlotið starfslaun listamanna til þess að sinna ýmsum tónlistarverkefnum. Ármann sinnir einnig uppeldislegum skyldum og er deildarstjóri blásaradeildar við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar þar sem hann stýrir Sinfóníuhljómsveit skólans.

Kristján Kristjánsson - KK

Kristján Kristjánsson eða KK (fæddur 26. mars 1956). Hann kemur fram á Berjadögum ásamt systur sinni Ellen sunnudaginn 16. júní nk. kl. 21:30 í Tjarnarborg.  KK er öllum  kunnugur sem lagasmiður, útvarpsmaður og er fyrirmynd fjölmargra íslenskra tónlistarmanna. Hann fæddist í Minnesota í Bandaríkjunum en fluttist síðar til Íslands. KK lærði tónlist í Malmö og ferðaðist um í Evrópu til að spila 1985-1990. Hann hefur unnið tvenn verðlaun á Íslensku tónlistarverðlaununum. Með þekktari lögum hans er Vegbúi. Árlega heldur hann jólatónleika með systur sinni Ellen Kristjánsdóttir. (úr wikipedia)

Guito Thomas

Guito Thomas er rokk-gítarleikari, lagasmiður og söngvari frá Brasilíu sem hefur búið hér á Íslandi sl. 15. ár. Tónlist hans er undir áhrifum frá Joe Satriani, Jimi Hendrix, Van Halen, U2, og Pink Floyd með hreim af Bossa Nova og Sömbu.

Frá árunum 2000 til 2006 komu frá honum þrjú albúm „Mil Maneiras Pra Dizer“, „Festa” and „Na Velocidade Dessa Rede”, öll í brasilískum anda. Fyrsta plata Guito var tilnefnd sem útgáfa ársins og eitt laga hans hljóðritað af EMI með þekktum listamönnum í Brasilíu. Með annarri plötunni stimplaði hann sig inn á tónlistarsviðið og við tóku fjölmörg tækifæri fyrir hann að koma fram og vinna í hljóðverum með öðrum listamönnum. Með þriðju plötu sinni komst hann svo inn á útvarpsstöðvar þar sem lög hans nutu vinsælda og ljóst var að hann hafði náð verulegum árangri á ferli sínum. Árið 2007, eftir neikvæða þróun í brasilískum tónlistariðnaði, flutti Guito til Íslands og nam við Tónskóla þjóðkirkjunnar orgelleik og kórstjórn. Hann lærði einnig sönglagagerð í Berklee College of Music í Boston þar sem hann lauk einnig meistaraprófi í gítarleik og síðar meistaraprófi frá Falmouth University í London. Hann hefur einnig lokið gráðu í uppeldis- og kennslufræðum frá Háskólanum á Akureyri.

Síðastliðin 15 ár hefur hann stundað kennslu í tónlistarskólum á Tröllaskaga og unnið sem organleikari og kórstjóri við Siglufjarðarkirkju. Ásamt starfi sínu þar sinnir hann einstökum verkefnum þar sem hann er fenginn til að koma fram á ýmsum stöðum víða um land þar sem hann hefur kynnt brasilíska tónlist samvinnu við aðra tónlistarmenn.

Rodrigo Lopes

Rodrigo Lopes slagverksleikari er fæddur í Brasilíu og starfar í Fjallabyggð sem kennari og tónlistarmaður. Hann hefur tekið þátt í Berjadögum frá árinu 2017.

Diljá Sigursveinsdóttir

stundaði fiðlunám við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og síðar söngnám við Söngskólann í Reykjavík þaðan sem hún lauk burtfararprófi árið 1997. Diljá lagði stund á söngnám, fiðluleik og Suzuki-kennslufræði í Kaupmannahöfn og lauk bakkalárgráðu frá Det Kongelige Danske Musikkonservatorium árið 2004 og 2016 útskrifaðist hún með meistaragráðu frá Listaháskóla Íslands.

Lokaverkefni Diljár var tónleikhús í samvinnu við Kammerhópinn ReykjavíkBarokk sem bar yfirskriftina “Barokk í Breiðholtinu-Í gegnum rimlana” og var sýning byggð á tónlist kventónskálda frá miðöldum til barokktímans sem lifðu og störfuðu innan veggja klaustranna. Síðan hefur Diljá unnið þrjár tónleikhússýningar í samvinnu við Kammerhópinn ReykjavíkBarokk “Elisabeth og Halldóra, Bach og Grallarinn” 2017 og “Bréf Halldóru Guðbrandsdóttur” 2018 og “Sjókonur og snillingar” 2021. Diljá var hugmyndasmiður og verkefnastjóri nýrrar tónlistarhátíðar “Kona-Forntónlistarhátíð” sem fram fór í árið 2019 í Skálholti og árið 2021 í Hljómahöllinni Reykjanesbæ.

Diljá starfar sem Suzukifiðlukennari við Suzukideild Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og síðustu fjögur ár hefur Diljá leitt tilraunaverkefni á vegum Tónskóla Sigursveins, Hólabrekkuskóla og Fellaskóla. Diljá er fiðluleikari í Kammerhópnum ReykjavíkBarokk sem stofnaður var árið 2012 og í strengjakvartettinum Spúttnik sem stofnaður var árið 2019.

 

Sólveig Thoroddsen

Sólveig kemur fram á Berjadögum föstudaginn 14. júní nk. í Ólafsfirði. Þar leikur hún á gotneska hörpu og barokkhörpu. Hún kemur fram ásamt eiginmanni sínum Sergio Coto Blanco. Sólveig Thoroddsen nam klassískan hörpuleik við Royal Welsh College of Music and Drama (Coleg Brenhinol Cerdd a Drama Cymru) í Cardiff í Wales og útskrifaðist með BMus-gráðu í júlí 2013. Á árunum 2013-2016 nam hún leik á barokk- og endurreisnarhörpur, með áherslu á þríraðahörpu, við Hochschule für Künste Bremen, þaðan sem hún útskrifaðist í júlí 2016. Sólveig hefur komið fram á tónlistarhátíðum og í tónleikaröðum í Evrópu og Mið-Ameríku, m.a. Sumartónleikum í Skálholti, Sumartónleikum í Hóladómkirkju, Sumartónleikum í Sigurjónssafni, Celebrating Sanctuary í London og 31 Festival de Música BAC Credomatic í Kosta Ríka og leikið með hópum á borð við capella santa croce og Ensemble Elegos. Aukinheldur hefur hún tvisvar séð um tónlistarflutning í árlegu jólaævintýri Bremer Shakespeare Company. Í desember 2019 gaf hún út sinn fyrsta geisladisk, Snotrur, þar sem hún syngur við eigin undirleik á mismunandi hörpur og finnska strengjahljóðfærið kantele. Á diskinum Consort of Two flytur Sólveig enska endurreisnartónlist ásamt kostaríska lútuleikaranum Sergio Coto Blanco, en diskurinn kom út hjá þýska plötufyrirtækinu arcantus árið 2023.

Sigursveinn Kristinn Magnússon
og Sigrún Valgerður Gestsdóttir

Sigursveinn: Að loknu nám hér heima í Tónlistarskólanum í Reykjavík og Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar stundaði Sigursveinn Magnússon framhaldsnám við Royal Academy of Music í London og síðar við Western Michigan University í Bandaríkunum. Þessi ár lagði hann stund á nám í hornleik, píanóleik og hljómsveitarstjórn. Síðar nam hann við Tónlistarháskólann í Vínarborg og dvaldi eitt námsár í Danmörku. Ásamt störfum sínum sem tónlistarskólastjóri hefur Sigursveinn starfað að félags- og skipulagsmálum á sviði tónlistar, verið virkur sem útsetjari, kvæðamaður, kórsöngvari og meðleikari og stjórnað hljómsveitum og kórum.

Sigrún: Sigrún hóf söngnám hjá Guðrúnu Sveinsdóttur og Engel Lund við Tónlistarskólann í Reykjavík. Framhaldsnám stundaði hún við Royal Academy of Music í London hjá Marjorie Thomas, í Kalamazoo, Bandaríkjunum í söngstúdíói Fay Smith og við Tónlistarháskólann í Vínarborg. Sigrún hefur komið fram með Kammersveit Reykjavíkur, sungið hlutverk í Íslensku óperunni, starfað með sönghópnum Hljómeyki og komið fram á tónleikum hér heima og erlendis. Sigrún kennir við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar.

Sergio Coto Blance

Sergio Coto Blanco fæddist í San José í Kosta Ríka. Hann kemur fram á Berjadögum föstudaginn 14. júní nk. kl. 20 í Ólafsfjarðarkirkju og leikur þar á endurreisnarlútur. Hann leikur ásamt konu sinni, Sólveigu Thoroddsen. Sergio lauk gítarnámi við Hochschule für Musik Hanns Eisler í Berlín. Í kjölfarið nam hann lútu- og teorbuleik við listaháskólann Hochschule für Künste Bremen og hefur sérhæft sig í flutningi endurreisnar- og barokktónlistar. Sergio hefur starfað sem lútuleikari víða í Evrópu og spilað undir hjá hópum eins og Vokalakademie Berlin, Das Norddeutsche Barockorchester, Bach-Chor München, Kammerphilharmonie Bremen og Bremer Barockorchester. Hann hefur komið fram á hátíðum eins og Händel-Festspiele Halle, Internationales Bachfest Schaffhausen, Heidelberger Frühling og Bachwoche Stuttgart. Auk þess hefur hann kennt meistaranámskeið um retórík í barokktónlist fyrir tónlistarnema í Kosta Ríka. Hann hefur starfað sem lausráðinn stundakennari við LHÍ og kennt kontrapunkt við Universidad Nacional de Costa Rica (UNA.) Í svipinn býr hann og starfar á Íslandi.

Jóhannes Andreasen

Jóhannes Andreasener píanóleikari kemur fram á Berjadögum laugardaginn 15. júní nk. kl. 20 í Tjarnarborg. Hann er sérstakur gestur Berjadaga! Jóhannes er fæddur og uppalinn í Þórshöfn í Færeyjum. Á síðasta ári í menntaskóla hafði Hrefna Eggertsdóttir frá Íslandi (sem þá bjó í Færeyjum) mikil áhrif. Á unglingsárum fór Jóhannes til Vínar til að stunda píanónám við Tónlistar- og sviðslistaháskólann. Og fór til frekara náms við International Menuhin Music Academy í Sviss og nam hjá Peter Feuchtwanger í London. Auk daglegra starfa í Tónlistarskóla Þórshafnar sem kennari á píanó og í hliðargreinum á Jóhannes afar farsælan sviðsferil að baki. Hann hefur verið kórstjóri, blandaða kórsins, Tarira sem á starfstíma hans (2015-2019) unnu nokkrar innlendar og alþjóðlegar kórakeppnir. Frá unga aldri hefur Jóhannes verið mikill kammertónlistarmaður og leikið með ólíkum tónlistarmönnum í dúó og ýmiskonar samstarfi og deildi sviðinu nokkrum sinnum með meðlimum London Symphony Orchestra og Vínarfílharmóníunnar. Jóhannes hefur komið fram sem einleikari með London, Helsinki, Vínarborg og víðar. Hans sérhæfing er klassískt tímabil og samtímatónlist. Hann hefur t.d. frumflutt tónsmíðar fyrir einleikspíanó eftir Trónd Bogason, Sunleif Rasmussen og Atla Heimi Sveinsson. Jóhannes hefur einnig komið fram fjölmörgu sinnum sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Færeyja.